miðvikudagur, apríl 21, 2010

STÓRA sýningin

Fyrir þau ykkar sem mistuð af tilkynningunni á fésbók, eða eru bara alls ekki á fésbók, set ég inn þessar fréttir:

frizbee er að fara að taka þátt í uppfærslu á Carmen í O2 Arena! Í henni mun ég ganga á stultum og blása eld í einu eða tveimur af stóru hópatriðunum. Æfingar byrja 4. maí, sýningar verða 21.-23. maí, og fyrir þetta fæ ég rúmlega 1600 pund!!

Alls. Ekki. Leiðinlegt.

þriðjudagur, mars 09, 2010

Verðlaun!!!

Fimm af meðlimum Bottlefed fóru til Berlínar og sýndu Hold Me Until You Break-gjörninginn á listahátíð þar í bæ síðastliðna helgi. Það að félagið sé að skjóta upp kollinum í fleiri og fleiri löndum er í sjálfu sér mjög jákvætt og bara nóg. En, eins og gráðug svín þurftum við að vinna til verðlauna á hátíðinni fyrir besta verkið, og erum boðin til baka í maí!! Hvort frizbee fái að fara með þá er óvíst, við sjáum til. En því verður ekki neitað að fjölmargar dyr eiga eftir að opnast nú þegar við getum með sanni kallað okkur verðlaunað leikfélag!

Ííí gamangaman!!!

fimmtudagur, febrúar 25, 2010

Ný vinna

Þá er loksins komið að því, frizbee byrjar í nýrri vinnu á mánudaginn! Ég verð hluti af hóp sem vinnur kynningarstörf fyrir fyrirtæki sem leigir út bíla á klukkutímann og fólk gerist eiginlega "áskrifendur" að þjónustunni. Við sem sagt förum út á stúfana og vekjum athygli á þjónustunni og fáum fólk til að kaupa aðild. Ég verð í fjögurra vikna reynslutíma þar sem ég fæ 7 pund á tímann, auk þess sem ég fæ bónus fyrir hvern sem skrifar undir. Eftir 4 vikur fæ ég svo að vita hvort ég fæ að halda áfram störfum hjá fyrirtækinu. Ég hef samt ekki sagt alveg skilið við HaHa, heldur mun vinna 1 dag í viku þar þangað til að ég veit meira, og ætla svo að sjá hvort ég geti ekki haldið þessum tveimur störfum á lofti... svo maður fái nú smá almennilegan pening.

Bottlefed sýnir gjörning í kvöld og tvær úr hópnum halda upp á þrítugsafmæli á morgun, þannig að það verður gaman í Lundúnaborg næstu daga.

Svo er einn af bestu vinum mínum úr Rose Bruford að fara að flytja í borgina eftir nokkrar vikur, og mun hann leigja með Dan vini okkar, sem býr í korters göngufjarlægð frá mér. Það verður ekkert leiðinlegt.

Meira var það ekki í bili. Blogga aftur þegar mér sýnist :p

þriðjudagur, desember 29, 2009

Ég er ekki hættur

...en þetta verður víst svona í framtíðinni; póstur á tveggja vikna til tveggja mánaða fresti. Það er betra en ekki neitt.

Vonandi hafa jólin verið yndisleg hingað til, og vonandi verður komandi ár alveg geggjað!!!

sunnudagur, nóvember 08, 2009

Myndir

Myndir frá listakvöldinu sem ég tók þátt í með leikfélaginu Tangled Feet eru komnar á fésbókina, ef þið skilduð vera forvitin...

mánudagur, október 26, 2009

Langt síðan síðast...

Já, langt síðan að ég skrifaði eitthvað hérna inn. En það er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst, langt því frá!

Átti eina af verstu vikum lífs míns í byrjun mánaðarins: veiktist á mánudeginum og missti 2 daga úr vinnu, en þurfti þess í stað að standa í því að pakka saman og þrífa íbúðina okkar, þar sem við vorum búin að finna nýja íbúð og vorum að fara að flytja út á miðvikudeginum. Kathrin hringdi frá Sviss á mánudagskvöldið og sagði mér að sambandið okkar myndi ekki ganga, en hún vildi hitta mig á fimmtudaginn eins og við höfðum ákveðið að við myndum gera þegar hún væri komin til baka. Þriðjudagskvöldið fáum ég, Auðunn og Vala þær fréttir að eigandi íbúðarinnar sem við ætluðum að flytja í væri hættur við okkur og ætlaði að leigja bænum hana. Við sem sagt heimilislaus.
Hitti svo Kathrin á fimmtudag og fæ það á hreint að ekkert muni ganga okkar á milli (nenni ekki að útskýra það frekar hér, er búinn að gera það nógu oft, en hlutirnir eiga eftir að lagast og við munum alveg geta unnið saman og verið vinir). Ástarsorg gerði næstu daga ómögulega, og ekki bætti úr að vinnan var sérlega erfið á föstudagskvöldið.

En, ekki hefur þetta allt verið eintómt væl og volæði. Við erum komin í nýja íbúð eftir að hafa gist hjá velviljandi vinum, ég vann örstutt með félagi sem heitir Tangled Feet, og við sýndum hálfgert lifandi tónlistarmyndband á stórskemmtilegu listakvöldi þar sem fullt skemmtilegt var í gangi. Ég stóð meðal annars í því að dangla úr siglínu til þess að láta stelpu sem var á hinum endanum rísa og falla rúma 4 metra. Það var gaman. Svo voru hljómsveitirnar sem spiluðu þarna alveg magnaðar, og ég dansaði meira en ég hef gert í langan tíma.

Svo er ég að fara að vinna með uppáhalds kennaranum mínum úr Rose Bruford í næstu viku, sem verður gaman, og von að eitthvað frekara gerist upp úr því.

Meira dettur mér ekki í hug í bili.

Sjáumst eftir 2 mánuði eða svo... en vonandi fyrr :)

miðvikudagur, september 16, 2009

Bara svo þið vitið það,

þá eru ágætis líkur á því að ég flytji einhvern tímann til Bern. Þvílík borg! Aðeins stærri en Reykjavík, og mikið fallegri. Lífið hérna er alveg stórfínt, sem við gistum í eru á efstu 2 hæðum leikhússins, þannig að það er lítið mál að koma sér í vinnuna, við erum með 2 eldhús, 2 baðherbergi, internetaðgang og svo er ísskápur í búningsherberginu sem starfsfólk Slachthaus Teater fyllti með vatni, kók, eplasafa og bjór :)

Fyrsta sýning á morgun, og nær uppselt á hana: 115 manns komnir.

Borðaði hjá "tengdaforeldrunum" í gær, 3 mismunandi tegundir af svissneskum pylsum, nautakjöt og grænmeti, og plómubaka í eftirrétt. Ég var dálítið illa fyrirkallaður í gærmorgun og fram eftir degi, en í dag er ég nýr maður!

Það er yfir fáu að kvarta.