miðvikudagur, september 16, 2009

Bara svo þið vitið það,

þá eru ágætis líkur á því að ég flytji einhvern tímann til Bern. Þvílík borg! Aðeins stærri en Reykjavík, og mikið fallegri. Lífið hérna er alveg stórfínt, sem við gistum í eru á efstu 2 hæðum leikhússins, þannig að það er lítið mál að koma sér í vinnuna, við erum með 2 eldhús, 2 baðherbergi, internetaðgang og svo er ísskápur í búningsherberginu sem starfsfólk Slachthaus Teater fyllti með vatni, kók, eplasafa og bjór :)

Fyrsta sýning á morgun, og nær uppselt á hana: 115 manns komnir.

Borðaði hjá "tengdaforeldrunum" í gær, 3 mismunandi tegundir af svissneskum pylsum, nautakjöt og grænmeti, og plómubaka í eftirrétt. Ég var dálítið illa fyrirkallaður í gærmorgun og fram eftir degi, en í dag er ég nýr maður!

Það er yfir fáu að kvarta.

sunnudagur, september 06, 2009

Kominn aftur út

Kominn "heim" í Catford, og við tekur stress yfir tóma herberginu í íbúðinni okkar. Við spyrjum að leikslokum hvað það varðar.

Eyjar voru notalegar, og lokakvöldið var einkar ánægjulegt. Ég át dýrindis lambasteik með gamla settinu, fékk Öldu og Birnu í heimsókn, og kíkti svo með Zindra heim til Hildar og Eyvinds, þar sem þjóðarheiti voru rædd og leiðrétt. Við komumst að því að fólk frá Sviss kallast ekki Svisslendingar, heldur Svissar, enda heitir landið ekki Svissland. Frá Póllandi koma Póllendingar, Danmerkingar frá Danmörku og Svíþýðingar frá Svíþjóð.

Nú er bara að vinna og spara alla þessa viku, og reyna að springa ekki úr spenningi yfir því að fara til Sviss á mánudagsmorguninn, og hitta Kathrin aftur.

miðvikudagur, september 02, 2009

Þær gerast vart betri, heimferðirnar

Er í Eyjum, og slaka loksins almennilega á.

Síðan að ég kom til landsins er búið að vera voðalega lítið stoppað, þar sem maður hefur verið út og suður annað hvort að hitta vini og ættingja, undirbúa sýningar, sýna fólki borgina (og dálítið af landinu), og bara hvað sem er annað en að hvíla sig. Ég ýki kannski aðeins, við kíktum alveg í sund og potta og svona, og ég man eftir að hafa glápt á Heima eftir Sigur Rós með Kathrin og Rebecu á laugardaginn, en það voru bara stundir milli stríða.

Kom með Kathrin og Rebecu til Eyja á sunnudagskvöldið, og eftir smá síðnætursnarl drifum við okkur út í leit að lundapysjum. Það þykir víst frekar mikil bjartsýni að reyna að finna eina svoleiðis þessa dagana, en það sakar ekki að reyna. Fundum samt enga einustu.
Daginn eftir var farið í bíltúr um eyjuna, stelpunum sýnt Pompeii norðursins, sprangið, Herjólfsdalur og fleira, og svo var þetta allt toppað með tuðruferð í kring um eyjuna í boði Ölmu og Frikka, með Himma Nínon við stjórnvölinn. Frábær ferð, og stelpurnar alveg í skýjunum!

Nú ligg ég bara upp í rúmi í náttbuxunum og spái í því hvort ég eigi ekki að drífa mig í sturtu fyrir hádegi...

jú, ætli það ekki