þriðjudagur, ágúst 25, 2009

Á Íslandi

Hópurinn er hæstánægður með ferðina hingað til. Nú er streitulevelið hins vegar sífellt hækkandi, þar sem ýmsar reddingar eru í gangi, og sýningar á morgun og fimmtudaginn. En það er samt bara allt samkvæmt uppskriftinni.

Músíkantarnir okkar spila í Nývöruverslun Hemma og Valda kl. 21 í kvöld (ef ske kynni að einhver sem hefur áhuga á framúrstefnutónlist skildi kíkja hér inn á næstu 2 tímum), og svo er bara að rokka í Iðnó!

Pantið miða í 562-9700

Sjáumst!

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Breyting

Móðir vor er ánægð með hana Kathrin mína (innskot: í Sviss er "Kathrin" borið fram nokkurn veginn eins og "Katrín"). Ástæðan er sú að Kathrin er grænmetisæta, og þar af leiðandi hef ég "neyðst" til að borða mikið af grænmetisréttum. Sem betur fer er Kathrin helvíti góður kokkur, og ég hef aðeins einu sinni étið matinn hennar með lítilli lyst. Henni hefur meira að segja tekist að fá mig til að éta tómata!!! Batnandi manni og allt það. Kem samt ekki nálægt gúrkum, poj!

Það styttist í Íslandsförina, og spenningurinn magnast. Reddingar út og suður eru í gangi, sem og kynningarstörf (lesist: boð á facebook)ýmiss konar.

Ég fór til Wales þar-síðustu helgi, með Dan, Joe og Gordie vinum mínum. Aðaltilgangur ferðarinnar var að heimsækja foreldra Shauns, vinar okkar heitins, en bónusinn var að komast úr borginni og anda að sér fersku lofti, auk þess sem við höfðum ekki hangið allir fjórir saman síðan ég veit ekki hvenær.
Ferðin var... skrýtin. Húsið sem þau hjónin búa í er stórglæsilegt, þó það sé ekkert hrikalega stórt, steinsnar frá ströndinni og svalir og allur pakkinn, lífið þarna var mjög notalegt, kallinn fór með okkur út á bát að veiða makríl og við strákarnir kíktum á pöbbinn um kvöldið og nutum þess að þurfa ekki að borga meira en 3 pund fyrir bjórinn. En við heimsóttum auðvitað líka Shaun, og spjölluðum við foreldra hans um hann; af og til, þegar við vorum einir með kallinum, þá ýmist gaf hann það í skyn eða sagði bara hreint út að hann langaði oft bara að deyja sjálfur. Hvað segir maður við einhverju svona?? Ég get ekki ímyndað mér hvernig það hlýtur að vera að ganga með gapandi sár á sálinni í tæp tvö ár, eða 20!
En, þau höfðu amk gaman af því að fá okkur í heimsókn, og hvöttu okkur eindregið til að koma sem fyrst aftur, sem ég vona að við getum gert.

Já, og eitt sem ég gleymdi að minnast á: það kíkti selur á okkur meðan að við vorum að veiða! Hann var svo rólegur og kurteis eitthvað að við gátum ekki annað en gefið honum makríl :)
...verst að ég er ekki búinn að setja myndirnar frá helginni inn á tölvuna :p

Stórglæsileg Þjóðhátíð að baki, skilst mér. Gaman hefði verið að komast á hana. Ojæja, næsta ár bara.
Sjáumst þá!