þriðjudagur, mars 31, 2009

Í góðri sveiflu

Smá dæmi um vinnuna sem farið hefur fram við sýninguna okkar:


Reyndar er þessi mynd tekin sekúndubroti áður en stelpan á myndinni slasaðist lítillega. En ég legg áherslu á orðið "lítillega"; hún er orðin góð núna.
Flott mynd samt : )

sunnudagur, mars 29, 2009

"Take Courage"

Þessi orð hafa blasað við mér hvað eftir annað í gegn um árin sem ég hef dvalið hérna úti. Það eru aðallega tvær byggingar sem blasa við á leið minni inn í miðborg mest lestinni sem hafa plantað þessari hvatningu í kollinn á mér og, oftar en ekki, virkað. Önnur þessara bygginga hýsir bar sem ég hef mjög gaman af að mæta á, og á meðan að nafn barsins er málað í daufum litum efst á vegg hans, stendur hvatningin í rauðum neonljósum svo hún fer ekki fram hjá neinum! Hin byggingin snýr greinilega frá teinunum, þannig að maður sér ekki hvers konar starfsemi fer þar fram, ef einhver, en áletrunin er á henni aftanverðri. Ég spáði oft í því af hverju fólk væri að setja þetta upp, án þess þó að ég hefði neitt á móti því, síður en svo. Mér datt í hug að þetta hafi verið eitthvað sem sást út um allar trissur í annari hvorri heimsstyrjöldinni til að stappa stálinu í landanum og ýta undir von og, já hugrekki þegnanna, og í seinni tíð hafi fólk haldið í þetta bæði til að minnast samstöðunnar sem skapaðist við þetta, og líka til að stappa stálinu í þá sem, af einhverjum ástæðum, þyrftu á því að halda nú til dags. Voða kósý tilhugsun, ekki satt?
Ég hef sjálfur oft þurft á svona hvatningu að halda, og þessi áletrun hefur oftar en ekki hjálpað.
En, eitt sinn þegar ég nefndi þetta við enskan félaga minn og mærði þetta framtak félagshyggðra manna, þá fékk ég raunverulegu útskýringu á þessu öllu saman: "Courage", í þessu tilfelli, er nafn á enskri bjórtegund, svona 'traditional ale' sem selt er hálfvolgt og er áunninn smekkur í flestum tilfellum.
Þvílík vonbrigði!!! Það var sem sagt ekkert verið að segja við mig "hertu upp hugann, strákur!" heldur bara "fáð'ér bjór!". Iss!
En jæja, ætli ég geri ekki þá bara bæði :)

Sýningarnar okkar byrja á fimmtudaginn. Spennan magnast!

miðvikudagur, mars 11, 2009

Þá byrjar fjörið aftur

Snéri aftur til London síðastliðinn mánudag eftir helgi í höfuðborginni, sem var heldur en ekki óvenjuleg.
Ég þurfti nefnilega að mæta til kjálkaskurðlæknis, þar sem tannlæknirinn minn réði ekkert við endajaxlinn sem var byrjaður að kíkja upp hægra meginn í neðri gómnum. Þetta byrjaði allt voða venjulega, deyfing og fínerí, og svo bara byrjar hann að vinna. En þetta er allt pikkfast og hann hafði orð á því hvað þetta væri mikið mál(Fyrsta hættumerki).
Þannig að jaxlinn er flísaður út smátt og smátt og svo eru gerðar tilraunir af og til til að toga það sem eftir er út. Ekkert. Læknirinn dæsir eitthvað á þessa leið: "ég er svo aldeilis", og setur sig í stellingar (annað hættumerki). Til að gera langa sögu stutta, þá fór ég að finna til í gegn um deyfinguna þangað til að sársaukinn var orðinn óbærilegur þrátt fyrir að læknirinn væri ekki að gera neitt. Ég fæ sprautu, enginn munur, svo aðra, kvarta undan því að ljósið skeri í augun, fæ svefngrímu og svo er ég vakinn þegar allt er búið.

Var uppdópaður og sljór það sem eftir var af föstudeginum. Daði Guðjóns fór með mig til Ernu Bjarkar, en þar sem hún var búin að plana partý um kvöldið og það þurfti að hafa auga með mér, þá var ég fluttur heim til Nonna Stebba vinar míns og gisti þar.
Svo vakna ég bara á laugardaginn, með furðu lítinn verk og nær óbólginn. Hjálpaði Nonna og Jónínu að flytja (þurfti samt að kúpla mig út vegna svima), kíkti á æfingu hjá Gumma Lúðvík í Keflavík, fór svo með honum í partý þar sem eitthvað var af áhugaleiksnillingum. Söng í karókí og lék á alls oddi.
Sunnudagurinn fór hægt af stað en ég náði að hitta á frændsystkini í keilu og kaffihúsaferð og hitti svo Stebba og fleiri um kvöldið í lokabjór.
Ágætis ferð, en hún hefði mátt vera u.þ.b. 3 dögum lengri svo ég hefði getað hitt alla. Biðst afsökunar á sambandsleysi og vonast til að hitta ykkur sem fyrst.

En lífið hér úti er strax komið á fullt aftur og sem merki um það verð ég að enda þessa færslu hér svo ég verði ekki of seinn!!