föstudagur, janúar 30, 2009

Talandi um heimsku...

Ég kynni: Jam

Ég er heimskur

Ég meina, ég hlýt að vera heimskur. Út af því að ég er mennskur. Og mannfólkið er heimskt. Aldrei lærum við neitt. Við endurtökum alltaf sömu mistökin, og ef einhver reynir að minna okkur á þau þá er sá hinn sami púaður niður og látinn vita að nú eru hlutirnir öðruvísi.

Af hverju eru ekki reistir minnisvarðar til að minnast þess neikvæða í sögu þjóðar? Það er svo sannarlega ekki vanþörf á. Ef það yrði gert yrði kannski von til þess að næst þegar það skapast góðæri á landinu, og einhverjir apakettir fara að leika sér með peningana okkar, muni einhver geta sagt "hey! bíðum nú aðeins...". En það mun örugglega duga skammt. Við erum nú einu sinni að tala um skepnur sem það þarf að skikka til að spenna ökubelti, nota hjálma, nota ekki dóp, og já, bara koma ekki illa fram hvort við annað!

Margir foreldrar halda því statt og stöðugt fram að þeir viti best hvernig þeir eiga að ala upp börnin sín, bara út af því að þau eru börnin þeirra, en gleyma því að við erum ekki eins einstök og Kærleiksbirnirnir og Folinn minn litli vilja meina, við erum nú einu sinni bara skepnur. Já, við erum aðeins flóknari uppi í kollinum en hinar skepnurnar, en við lútum langflest sömu hvötunum og áhrifaþáttunum þegar það kemur að atferli okkar. Þannig að næst þegar við verðum vöruð við því að endurtaka ekki mistök fortíðarinnar, þá skulum við ekki reyna að plata sjálf okkur og aðra til að hugsa að "núna sé þetta öðruvísi", því þetta er alltaf eins!
Næst þegar svipaðar aðstæður byrja að skapast í þjóðfélaginu, þá skulum við mæta með pottana og trommurnar ÁÐUR en allt fer til fjandans!!!

sunnudagur, janúar 18, 2009

Ísrael stoppar

Stórmannlegt, ekki satt? Nú er bara að vona að Hamas-hálfvitarnir átti sig á því að hryðjuverk eru ekki rétta leiðin að því að fá réttlæti fyrir palestínsku þjóðina. Álíka gáfulegt og að vera 5 ára krakki sem sparkar síendurtekið í sköflunginn á siðlausu vöðvatrölli... það endar alltaf á sama veg. Ég þoli ekki að horfa upp á fjöldamorð ísraelsku stjórnarinnar, en fólk má ekki gleyma því að Hamas kallar þetta yfir samborgara sína þar sem svipaðar atburðarásir hafa átt sér stað undanfarin ár og áratugi, en samt þrjóskast þeir við að myrða 1-2 saklausa ísraelska borgara þegar þeir ættu að vita mætavel hvert svarið frá Ísrael verður.

blah... hef ekki meira að segja, enda skiptir það engu máli.

En persónulega hef ég það ágætt

Pís!

mánudagur, janúar 12, 2009

Jáheyrðu, gleðilegt ár!

Það byrjar svona sæmilega hjá manni, þó að það mætti vera öllu betra hvað atvinnu varðar, þar sem hún er nauðsynleg til að grynnka á skuldasúpunni.

En hvað er búið að vera gott? Áramótin voru helvíti góð, þau fjölmennustu sem Brattagata 19 hefur nokkurn tímann séð (en þetta stefnir nú í vandræði ef Hrefna fer að fjölga mannkyninu, eða Alda nær sér í mann... og fjölgar) skaupið var hið fínasta, og svo þusti maður á milli partýa og ballstaða með góðum árangri og, það sem meira er, varla nokkrum tilkostnaði!

Eitt hefur hjálpað verið til bóta hvað fjárhaginn varðar, en það er gott gengi í póker undanfarið. Ekki eru nein áform uppi um að gerast pró, en ég þarf ekki að bæta mig mikið til þess að vinningar verði það algengir að þetta sé meira en bara skemmtun með smá séns á vinningi. Borgaði meðlimagjaldið í Félag Íslenskra Leikara (jebb, orðinn fullgildur meðlimur), lagði 5000 kall inn á banka, og átti svo afgang af síðasta vinningi.

Eitt stutt: Ísraelska stjórnin og Hamas-liðar eru hálfvitar! Meira segi ég ekki hér. Veit að þetta er dálítið í ætt við "helvítis fokking fokk", en ég er búinn að eyða munnlegu púðri í þetta og nenni ekki að skrifa eitthvað sem engu máli skiptir, heldur að láta verkin tala og styrkja hjálparstofnanir sem vinna gott og hættulegt starf þarna eystra.

Nú vona ég bara að atvinnumálin lagist hjá mér svo ég geti farið að borga Glitn... ég meina Íslandsbanka, og jafnvel skellt mér í heimsókn í höfuðborgina.

Meira var það ekki