miðvikudagur, september 02, 2009

Þær gerast vart betri, heimferðirnar

Er í Eyjum, og slaka loksins almennilega á.

Síðan að ég kom til landsins er búið að vera voðalega lítið stoppað, þar sem maður hefur verið út og suður annað hvort að hitta vini og ættingja, undirbúa sýningar, sýna fólki borgina (og dálítið af landinu), og bara hvað sem er annað en að hvíla sig. Ég ýki kannski aðeins, við kíktum alveg í sund og potta og svona, og ég man eftir að hafa glápt á Heima eftir Sigur Rós með Kathrin og Rebecu á laugardaginn, en það voru bara stundir milli stríða.

Kom með Kathrin og Rebecu til Eyja á sunnudagskvöldið, og eftir smá síðnætursnarl drifum við okkur út í leit að lundapysjum. Það þykir víst frekar mikil bjartsýni að reyna að finna eina svoleiðis þessa dagana, en það sakar ekki að reyna. Fundum samt enga einustu.
Daginn eftir var farið í bíltúr um eyjuna, stelpunum sýnt Pompeii norðursins, sprangið, Herjólfsdalur og fleira, og svo var þetta allt toppað með tuðruferð í kring um eyjuna í boði Ölmu og Frikka, með Himma Nínon við stjórnvölinn. Frábær ferð, og stelpurnar alveg í skýjunum!

Nú ligg ég bara upp í rúmi í náttbuxunum og spái í því hvort ég eigi ekki að drífa mig í sturtu fyrir hádegi...

jú, ætli það ekki