sunnudagur, mars 29, 2009

"Take Courage"

Þessi orð hafa blasað við mér hvað eftir annað í gegn um árin sem ég hef dvalið hérna úti. Það eru aðallega tvær byggingar sem blasa við á leið minni inn í miðborg mest lestinni sem hafa plantað þessari hvatningu í kollinn á mér og, oftar en ekki, virkað. Önnur þessara bygginga hýsir bar sem ég hef mjög gaman af að mæta á, og á meðan að nafn barsins er málað í daufum litum efst á vegg hans, stendur hvatningin í rauðum neonljósum svo hún fer ekki fram hjá neinum! Hin byggingin snýr greinilega frá teinunum, þannig að maður sér ekki hvers konar starfsemi fer þar fram, ef einhver, en áletrunin er á henni aftanverðri. Ég spáði oft í því af hverju fólk væri að setja þetta upp, án þess þó að ég hefði neitt á móti því, síður en svo. Mér datt í hug að þetta hafi verið eitthvað sem sást út um allar trissur í annari hvorri heimsstyrjöldinni til að stappa stálinu í landanum og ýta undir von og, já hugrekki þegnanna, og í seinni tíð hafi fólk haldið í þetta bæði til að minnast samstöðunnar sem skapaðist við þetta, og líka til að stappa stálinu í þá sem, af einhverjum ástæðum, þyrftu á því að halda nú til dags. Voða kósý tilhugsun, ekki satt?
Ég hef sjálfur oft þurft á svona hvatningu að halda, og þessi áletrun hefur oftar en ekki hjálpað.
En, eitt sinn þegar ég nefndi þetta við enskan félaga minn og mærði þetta framtak félagshyggðra manna, þá fékk ég raunverulegu útskýringu á þessu öllu saman: "Courage", í þessu tilfelli, er nafn á enskri bjórtegund, svona 'traditional ale' sem selt er hálfvolgt og er áunninn smekkur í flestum tilfellum.
Þvílík vonbrigði!!! Það var sem sagt ekkert verið að segja við mig "hertu upp hugann, strákur!" heldur bara "fáð'ér bjór!". Iss!
En jæja, ætli ég geri ekki þá bara bæði :)

Sýningarnar okkar byrja á fimmtudaginn. Spennan magnast!