föstudagur, janúar 30, 2009

Ég er heimskur

Ég meina, ég hlýt að vera heimskur. Út af því að ég er mennskur. Og mannfólkið er heimskt. Aldrei lærum við neitt. Við endurtökum alltaf sömu mistökin, og ef einhver reynir að minna okkur á þau þá er sá hinn sami púaður niður og látinn vita að nú eru hlutirnir öðruvísi.

Af hverju eru ekki reistir minnisvarðar til að minnast þess neikvæða í sögu þjóðar? Það er svo sannarlega ekki vanþörf á. Ef það yrði gert yrði kannski von til þess að næst þegar það skapast góðæri á landinu, og einhverjir apakettir fara að leika sér með peningana okkar, muni einhver geta sagt "hey! bíðum nú aðeins...". En það mun örugglega duga skammt. Við erum nú einu sinni að tala um skepnur sem það þarf að skikka til að spenna ökubelti, nota hjálma, nota ekki dóp, og já, bara koma ekki illa fram hvort við annað!

Margir foreldrar halda því statt og stöðugt fram að þeir viti best hvernig þeir eiga að ala upp börnin sín, bara út af því að þau eru börnin þeirra, en gleyma því að við erum ekki eins einstök og Kærleiksbirnirnir og Folinn minn litli vilja meina, við erum nú einu sinni bara skepnur. Já, við erum aðeins flóknari uppi í kollinum en hinar skepnurnar, en við lútum langflest sömu hvötunum og áhrifaþáttunum þegar það kemur að atferli okkar. Þannig að næst þegar við verðum vöruð við því að endurtaka ekki mistök fortíðarinnar, þá skulum við ekki reyna að plata sjálf okkur og aðra til að hugsa að "núna sé þetta öðruvísi", því þetta er alltaf eins!
Næst þegar svipaðar aðstæður byrja að skapast í þjóðfélaginu, þá skulum við mæta með pottana og trommurnar ÁÐUR en allt fer til fjandans!!!