mánudagur, nóvember 24, 2008

Það var mikið!!

Höfðingjarnir hjá HaHa! (barkeðjunni sem ég vinn hjá) hafa loksins séð það í sóma sínum að veita okkur þrælunum smá partý. Venjulegir pöbbar og klúbbar eru oftast með nokkur svona á ári, ekkert mál, en HaHaHöfðingjarnir eru allt of uppteknir við að halda í aurana sína til þess. Framkvæmdastjórinn okkar hefur af og til verið að láta okkur vita af því hvað staðnum okkar gengur vel, miklu betur en í fyrra, en ekkert hefur bólað á neinum sérstökum þökkum, öðrum en launaseðlinum, sem er sjaldnast feitur. En, næstkomandi laugardag munum við sem höfum verið að vinna þarna amk síðusta hálfa árið fá að skella okkur á skauta og svo á pöbbann í boði fyrirtækisins, og er það vel. Man ekki hvort ég hafi minnst á það áður, en ég fékk líka launahækkun um daginn, stökk upp í heil 6 pund á tímann, sem, miðað við núverandi gengi, er um 1200 kall, ekki slæmt, en það hrekkur ekkert sérlega langt hérna úti. En maður á fyrir leigunni, og matnum, og bjórnum, þannig að maður getur ekki kvartað.

Var að fá upplýsingar um leiksýningu sem verið er að leita að leikurum í, ætla að reyna við hana. Nánari upplýsingar síðar.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Er einhver betri tími til að vera retró en akkúrat núna?

...ekki til að ganga í fötum af frænda einhvers sem maður hefur aldrei hitt, heldur einfaldlega til að grafa upp gamla slagarann þeirra Sverris og Stebba: "Horfðu á björtu hliðarnar"! Ókei, lífið á Íslandi er að versna...

- hliðarspor: ég hef komist að því að það er ekki til neitt orð á ensku sem er bein þýðing á hugtakinu að skána sem þýðir auðvitað að vont ástand sé að batna. En "getting better", "doing better" og önnur hugtök gætu öll átt við gott ástand sem fer batnandi. Kannski er það sérstaða þjóðar sem þraukaði á þessu rokrassgati okkar í aldaraðir sem hefur orsakað þessa orðaforðísku sérstöðu okkar, að við getum sagt, í einu orði, "... skítt, en ekki eins skítt og í gær". (ef fjöltyngdir lesendur mínir þekkja svipuð orð úr öðrum tungumálum, þá mega þeir endilega henda þeim inn!)

...og það á að öllum líkindum eftir að versna enn frekar en við munum aldrei hafa það eins skítt eins og sumir (ljótt að miða sig við fólk sem á við meiri hörmungar en maður sjálfur að stríða, en það hjálpar til við að minna mann á að maður hefur heilmikið til að vera þakklátur fyrir!). Kannski er hann Sverrir kallinn ekki alvitlaus.

Og svo er líka alltaf gott að hugga sig við það að það er til fólk eins og þessi snillingur sem ég rambaði á á rölti mínu úr vinnunni um daginn:


og myndbandið, sem eiginlega ekkert sést á, fylgir:

video

þetta er eitt af því sem lætur mig elska að búa í London, maður getur verið á strunsandi um í heljarinnar stress- eða þunglyndiskasti, og svo rambar maður á einhvern böskara sem er að flytja þvílíka snylldartónlist að maður getur ekki annað en komist í gott skap... eða skárra skap.