miðvikudagur, október 29, 2008

Brrrrrr!

Það er kominn vetur, og það er kalt! Sem betur fer prjónaði Mamma þessa fínu lopapeysu og sendi mér um daginn... ásamt íslensku nammi :)

Bottlefed er á fljúgandi siglingu: við verðum með tvær sýningar, 19. og 20. nóvember, þar sem norsararnir sem við unnum með slást í hópinn með okkur og sjá svo um tónlistina í partýi eftir hvora sýninguna. Allir eru á fullu að smala fólki á sýningarnar svo við mætum nú ferðakostnaði félaganna... og fáum kannski aðeins meira í sarpinn; svo erum við komin með ljósameistara og búninga- og sviðsmyndahönnuð fyrir sýningarnar í apríl og Vala er farin að tékka á möguleikum á sýningarferð til Íslands á næsta ári. Babbararamm!

Ég fékk ekki eldblástursljósmyndagiggið. Demit.

Er búinn að bóka flugið heim fyrir jólin. Kem 18. desember, og verð að öllum líkindum heima fram í seinni part febrúar/byrjun mars. Hlakka mikið til að segja upp vinnunni 10 mínútur í jólatraffíkina, stjórinn verður ekki ánægður, en eins og hann sagði þegar hann neitaði mér um launahækkun, þá getur hann fengið hvern sem er til að vinna vinnuna mína, þannig að hann getur ekki sagt neitt. Vona samt að hann geri það.

Nonni er kominn með fyrsta borgaða leiklistardjobbið sitt, hann er farinn til Skotlands að æfa svokallað pantomime sýningu. Það er viss hefð að ýmis félög fara af stað með svona sýningar þegar líður að jólum, og eru þær alltaf byggðar á klassískum ævintýrum eins og Þyrnirós, Aladdín, Öskubusku (sem Nonni er í) og fleirum, og eru aðallega fyrir börn. Fyrir þessa vinnu fær hann fríar ferðir og gistingu, plús 230 pund á viku, og ef hann nær að leigja herbergið sitt hérna heima út ætti hann að vera í nokkuð góðum málum.

Svo kemur Nanna "stóra systir" til landsins á morgun. Vííí! Við munum hittast á laugardaginn og skoða skrýtna fólkið í Camden saman, sem verður gaman.

Já, og aðgerðin á augnlokinu mínu bólgna heppnaðist vel, þó hún hafi verið ein óþægilegasta reynsla lífs míns hingað til, og ég er ekki frá því að ég sé bara sætari en nokkru sinni fyrr!

Er þetta ekki orðið ágætt í bili?

laugardagur, október 11, 2008

Til hamingju með fallið!

Allt í volli heima, bara! Hvað gerðist eiginlega??? Ég meina, það var allt í þessu fínasta, Íslendingar að eignast hálfan heiminn með fullkomlega eðlilegum hætti, sem ekkert var athugavert við, og svo bara hrynur þetta allt saman! Skrýtið.

Noregsferðin var einkar ljúf. Námskeiðshöld á daginn, æfingar á kvöldin, svo komið heim milli 10 og 11 um kvöld, allir elduðu sér eitthvað að éta, ýmist saman eða í sitthvoru lagi, og svo var fengið sér 1-2 drykki með smá spjalli fyrir svefninn. Svo var þetta meira eða minna endurtekið hvern einasta dag (við höfðum ekki efni á því að kíkja í bæinn). Asköy er gullfalleg og maður hafði ekkert á móti því að taka sér rúmlega klukkutíma göngutúr í félagsheimilið þar sem við störfuðum.

Stuttu eftir endurkomuna til London fengum við þær fréttir að leikhús eitt hér í borg ætlar að fá okkur til að sýna spunavinnuna okkar þrjú kvöld í röð í apríl nk, sem er auðvitað afar spennandi!

Var bent á að maður sem vinnur við að finna fólk í auglýsingar o.þ.h. væri að leita að eldblásara fyrir einhverja auglýsingu. Mætti í prufu í morgun, bíð svars, ef það er jákvætt, þá fæ ég 1000 pund fyrir 2ja daga vinnu! KROSSLEGGJA SVO!!!

Að lokum: Noregsmyndir

Útsýnið frá húsinu þar sem við gistum


...og að kvöldi til


Það ryllti alveg hrikalega í einni gönguferðinni okkar


ömm... já!


og svo hópurinn fríði í Bergen