mánudagur, september 29, 2008

Kominn til Noregs

Er reyndar ekki í Bergen eins og ég hélt að við yrðum, heldur á Askoy, og hér rignir. Lentum í Osló um eittleitið á staðartíma í gær og héldum á lestarstöðina inni í Osló, þar sem við komumst að því að í staðinn fyrir að panta far með 16:07 lestinni eins og allir aðrir, þá hafði ég einhvern veginn pantað far með 23:11 lestinni fyrir mig og Völu. Þannig að ég og Vala urðum að gjöra svo vel að drepa rúma 7 tíma í Osló. Við settumst niður á kaffihúsi í miðborginni og drukkum fáránlega dýrt gos, kaffi og heitt kakó í 3 tíma meðan að við skoðuðum hitt og þetta á internetinu til að stytta okkur stundir. Svo færðum við okkur aftur inn á lestarstöð (reyndar eftir að hafa farið í búð og komist að því að við eigum eftir að lifa á loftinu einu saman næstu vikuna) og horfðum á bíómyndir í tölvunni minni. Tókum svo lestina og komum til Bergen tæplega 7 í morgun og tókum strætó til Askoy sem skilaði okkur hingað rúmlega 8.

Þetta ferðalag byrjar vel

föstudagur, september 19, 2008

"Segðu nú eitthvað sniðugt"

Ein ástæðan fyrir því að ég er orðinn svona hrikalega blogglatur er sú að þegar ég sest fyrir framan tölvuna, þá er ekkert sniðugt sem liggur mér á hjarta að segja, og ég vil helst ekki vera svona "það sem ég gerði í dag"-bloggari. En, það eru víst nokkrir sem vilja einfaldlega fá fréttir af því sem drífur á daga mína (aðallega Sísí frænka, sem skipaði mér að blogga oftar... ókei Sísí), þannig að ég ætla ekkert að rembast við að vera sniðugur... ég þarf líka að spara sniðugheitin fyrir draumadjobbið sko.

En allavega, skuldasúpan góða virðist ekkert vera að grynnka, og ef eitthvað er, þá virðist hún vera að hitna líka! Ég hafði hugsað mér að leikstýra hjá Leikfélagi Vestmannaeyja eftir áramót, en miðað við þær fréttir sem ég hef fengið af leikfélaginu þá virðast möguleikarnir á því að það verði á annað borð starfandi vera heldur litlir. En þá er bara eitt að gera: MÆTA Á VERTÍÐ! En og aftur skal maður líta til Ægis og reyna að græða eitthvað á honum á stuttum tíma... hvort sem það verður á landi eða um borð í skipi. (Minnispunktur: muna að vera kominn með vinstri úlnliðinn í lag fyrir þann tíma; gerið mér greiða, ekki spyrja)
Talandi um úlnlið, ég kíkti til sjúkraþjálfara um daginn, og gott ef hann gerði ekki bara þónokkuð gagn! Muna að kíkja aftur þegar ég á 25 pund aflögu (s.s. aldrei!)

Nú er bara rétt rúm vika í Noregsferðina og spennan magnast! Noregur er dýr, en við erum víst með heimagistingu og verslum bara núðlur, ávexti o.þ.h. til að næra okkur í þessa viku sem við erum þarna. Svo fáum við líka ferðakostnaðinn greiddan aftur... sem er gott.

og að lokum:
"eitthvað sniðugt"