miðvikudagur, júlí 30, 2008

Harðnar á dalnum

Það er ekki tekið út með sældinni að vera leikhússpýra hérna úti (frekar en annars staðar, geri ég ráð fyrir). Vegna anna í kring um leiklistarverkefnin mín tvö hef ég verið með dálitlar sérþarfir hvað varðar vaktirnar á barnum sem ég vinn á. Ég hef samt passað upp á það að geta a.m.k. unnið ca. 40 tíma á viku svo ég eigi nú fyrir leigunni og mat og svoleiðis smáræði. En stjórinn minn sér ekki sólina fyrir gróðavonum, og ef reyndari manneskja getur unnið ákveðna vakt, þá fær hún hana, sama þótt hún sé með nóg af vöktum þá vikuna fyrir, og ég missi af tekjum. Þó ég geri mér fyllilega grein fyrir því að heimurinn snúist ekki í kring um rassgatið á mér, þá hlýtur að vera sjálfsagt að taka tillit til þess að fólk þarf að lifa, ekki satt?

En út í annað: Bottlefed verkefnið mun taka enda í þessari viku, með opinni æfingu í æfingarrýminu okkar í kvöld og spunasýningu í litlu leikhúsi í miðborginni á morgun. Þó ég hafi haft mikið gaman og gott af þessari vinnu, þá er ég feginn að geta sinnt VINNUNNI meira, því það er Íslandsferð á næsta leiti, og svo er Noregsferð með Bottlefed á döfinni í enda september. Hvernig þetta verður allt fjármagnað er ágætis spurning... en þetta er voða spennandi allt saman

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Góðir gestir

Skrapp aðeins út í gærmorgun í smá stúss. Þegar ég kem heim og opna útidyrahurðina hrekkur eitthvað frá henni. Í fyrstu hugsaði ég með mér hvað þessi kónguló hreyfðist asnalega, en þegar kvikyndið tók tvö lítil hopp sá ég að þetta gæti ekki verið kónguló. Beygði mig aðeins niður og pírði augun:
"er þetta...? Neeiii getur ekki verið"
beygði mig aðeins meira
"Ómægod! Er þetta froskur???"Já, ég var heimsóttur af litlum froski, engu stærri en nöglinn á litla puttanum. Þaut inn í hús, náði í glas og blað, en þegar ég kom aftur út var hann horfinn. Sá hann hvergi. Datt í hug að ég gæti verið að missa vitið. Hafði ætlað mér að sópa innkeyrsluna og svona, þannig að ég gleymdi bara froskinum og náði í kúst. Var ekki fyrr byrjaður að sópa en ég sá hann forða sér undan kústinum. Og nú náði ég honum. Hið sætasta kríli, eins og sést. En þegar ég hélt áfram að sópa kom annar í ljós. Ég kom þeim fyrir í plastdollu með smá vatnslögg (þeir þurfa að halda sér rökum, er það ekki?) og hélt út að sinna mínum málum. Eftir að ég var kominn heim um kvöldið kom Gordie inn úr eldhúsinu og sagði að þeir væru sloppnir á einhvern undraverðan máta og skoppuðu nú um gólfið þar. Forviða þramma ég inn í eldhús og já, þarna skoppuðu þeir um. Náði öðrum þeirra, en þegar ég ætlaði að setja hann í dolluna sá ég að þar voru fyrstu tveir froskarnir fyrir. Ókei, það er sem sagt froskainnrás í gangi. Á endanum fundum við og fönguðum rúmlega 10 stykki, og fundum 2 sem höfðu fallið í valinn undan fótum okkar (það er greinilega ekki alltaf kostur að vera í felulitum).


Útskýringin á þessu öllu saman er sú að nágranninn minn er með litla tjörn í bakgarðinum og þar sem það var búið að vera mjög votviðrasamt undanfarna daga, voru krílin ekki bundin við hana og fóru á flakk. Ég er bara að spá... ef það kom á annan tug froska inn til mín, hvað eru þeir þá eiginlega margir í það heila???Aðrar fréttir: Bottlefed sýndi hálftíma spuna á lítilli kverfishátíð. Hann var ömurlegur. Sem er auðvitað frábært... þannig séð.