föstudagur, apríl 25, 2008

Ég er að fá hálsbólgu

...en ég hef engan tíma til að verða veikur, er að vinna í dag og á morgun, spila körfubolta með Snorra Hergli og fleirum og mæti svo í kvöldmatarboð/fund hjá einni úr Bottlefed á sunnudaginn, æfingar fyrir þáttöku Bottlefed í BrusselsMeetsBrighton á mánudag og þriðjudag, þáttakan sjálf á miðvikudagskvöldið, innflutningspartý á sunnudaginn eftir það, og svo get ég vonandi troðið eins mörgum vinnutímum og mögulegt er þarna inn á milli.

En nóg um mig: ein af helstu krúsídúllum þessa lands er víst komin með pláss í Rose Bruford, en ætlar að tékka á fleiri skólum eins og skynsamri stelpu sæmir.
Til hamingju Aldís!

laugardagur, apríl 05, 2008

Hjólin snúast... frekar hratt bara

Ókei, ég er að fara að flytja inn í nýju íbúðina á mánudaginn, sem verður GRÍÐARLEGT gleðiefni. Í næstu viku mun ég vinna tæpa 60 tíma á barnum!! Eini heili frídagurinn verður mánudagurinn, sem fer, eins og fyrr sagði, í flutninga, svo fæ ég frí föstudagskvöldið til að mæta í afmæli og hef til kl. 3 daginn eftir til að jafna mig eftir það. Ég hef ekki haft aðgerðarlausan dag í langan tíma. Þegar ég var atvinnulaus var ég auðvitað á þönum við að leita að vinnu og íbúð og var ekkert voðalega afslappaður þar inn á milli. Fríkvöldin/dagarnir í vinnunni hafa farið í æfingar, hittinga, fundi o.fl. Allt er þetta gríðarlega jákvætt í sjálfu sér, ég vil miklu frekar vera upptekinn heldur er aðgerðalaus, en ég er farinn að spá í að bóka mér frídag úr vinnunni, og það skal vera dagur sem ég hef ekki neitt að gera. Ef ég kýs að sitja heima og bora í nefið, þá get ég gert það, ef mér dettur í hug að fá mér smá göngutúr, þá get ég gert það, en aðal kosturinn við þennan dag er að ég mun ekki þurfa að fylgja neinni Áætlun!

Það er íslensk stelpa í Bottlefed hópnum sem setti upp sýningu hér í London og í Noregi sem heitir "What now, Maddid". Sýningin er fyrsta verkefni Maddid Theatre Company og mig minnir endilega að Mamma hafi bent mér á grein í Mogganum um félagið, og spurningin "kannastu við þessa stelpu?" fylgdi auðvitað. Nú vill svo skemmtilega til að ég hef kynnst henni, og hún hefur fengið mig til liðs við Maddid Theatre Company til þess að aðstoða við að heimfæra og þróa sýninguna til sýninga heima á Íslandi. Þetta er auðvitað gríðarlega spennandi, en mér finnst erfitt að finna titil yfir vinnuna sem ég mun leggja í þetta verk. Aðstoðarleikstjóri? Dramatúrgur? Veit ekki...

Svo virðist það orðið nokkuð öruggt að ég muni leika í sýningunni sem mun verða til úr vinnunni með Bottlefed. Við höfum tekið hlé frá æfingum, en byrjum aftur í byrjun júní og vinnum tvö kvöld í viku fram í enda júlí og munum fá fjóra daga í röð þar sem við æfum frá morgni fram á kvöld. Ef félagið fær fjármagn, verða þessir dagar borgaðir, og frizbee mun ná stórum áfanga, sem hann bjóst ekki við að ná a.m.k. fyrsta árið, að fá borgað fyrir að leika!!!

Að lokum: mér finnst þetta kúl!
skrollið niður)
En ykkur?