miðvikudagur, janúar 30, 2008

Flugið hefur verið bókað!!!

Loksins, loksins!
Nú er ekkert því til fyrirstöðu að ég drífi mig út á vit nýrra ævintýra og mögulega (líklega) skulda! Hjartað litla hefur ekki slegið svona fast í langan tíma og ég hreinlega ræð mér varla af spenningi!

Kíkt verður í borg óttans og meðan á þeirri dvöl stendur mun ég a.m.k. -
A) Kíkja á frændsystkinapöbbarölt á föstudaginn
B) Mæta í innflutningspartý hjá Ernu Björk á laugardaginn
C) Reyna að sjá Magga Grimmsbróður í Fool for Love einhvers staðar þar á milli (vill einhver koma með?)
D) Hitta fleira fólk, jafnvel kíkja á Palla Þorbjörns í Grindavík áður en ég fer.

Vélin mun svo stíga til himna kl. rúmlega 7 á þriðjudagsmorguninn!

Spennandi!!!

mánudagur, janúar 28, 2008

"Þú ferð hvergi, herra Ágústsson"

Ég er að reyna að dagsetja brottför mína til London. Veit ekki alveg hvenær ég kemst, því ég þarf að komast til augnlæknis og veit ekki hvort sú heimsókn eigi eftir að draga einhvern dilk á eftir sér. Átti pantaðan tíma kl. 10:45 í morgun, en þar sem það var ófært með Herjólfi í allan gærdag er ég nú kominn með tíma kl. 9:15 á miðvikudaginn! Og ég sem ætlaði í borgina á miðvikudaginn! Kemst svosem með seinni ferðinni, en það er erfitt að skipuleggja eitt eða neitt með svona stuttum fyrirvara.

Baráttan við Glitni er töpuð. Það er ekkert sem segir að þeir megi ekki taka mig í skraufþurrt. Er alvarlega að spá í að athuga hvernig bankarnir í Englandi haga sínum viðskiptum og gera smá samanburð...

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Í fjarskanum heyrðist angistaróp

það hefði verið hægt að forðast skaðann; en til þess hefði þurft þekkingu, skjóta hugsun og jafnvel undraverða hæfileika í dulmálsafkóðun. Það var ekki til staðar... allavega ekki í miklu magni. Hinn særði reyndi að sannfæra Báknið að þessi meðferð væri ekki sanngjörn, en Báknið var á öðru máli, sagði reglurnar segja til um hvernig fara ætti með hans líka. En fórnarlambið neitaði að gefast upp! Innst í hjarta þess blundaði sú vitneskja... nei, sú trú að einhver væri á bandi þess. Það hlaut að vera.

**************************************************************************************

Doðranturinn skall á borðinu. Í hann voru skráð nöfn. Aragrúi nafna. Sum þeirra tilheyrðu fólki sem gæti haft samúð með hetjunni okkar, flest þeirra tilheyrðu fólki sem var alveg sama, örfá tilheyrðu fólki sem gæti ekki einu sinni skilið hana, og enn færri þeim sem gætu hjálpað. Til allrar hamingju vissi hetjan nafnið á þeim sem gæti hjálpað: Neytendastofa.

************************************************************************************

Ef svar Neytendastofu er það sem frizbee býst við, þá verða átök. Báknið verður ekki auðsigrað, en það er ekki ósigrandi. Jafnvel þó það heiti Glitnir!

Framhald... einhvern tímann