miðvikudagur, september 26, 2007

Bowie to Bowie

föstudagur, september 21, 2007

Hjartað hamast...

Ég veit ekki hvernig ég á að vera.
Steini, gamall vinur minn, liggur milli heims og helju á spítala og engin leið að vita hvernig fer með hann. Bráðaveikindi af verstu gerð. Bara eins og þruma úr heiðskýru lofti dembist þetta yfir greyið drenginn og maður bara bíður frétta. Vildi að ég gæti teleportað mig snöggvast til hans.

mánudagur, september 17, 2007

Farangur

Ég hef gaman af því að skipta um umhverfi, en ég þoli ekki að ferðast. Af hverju? Út af því að ferðalögum fylgir alltaf farangur. Ég held bara svei mér þá að ég hafi aldrei farið í farangurslaust ferðalag. Alltaf vottar fyrir a.m.k. lítilsháttar farangri. Farangrið getur stafað af leiða yfir lengd ferðalagsins, þreytu vegna burðar á farangri (kk, ekki hk), stressi vegna ýmiskonar tafa eða galla í ferðaáætlun, lélegra eða óheiðarlegra leigubílstjóra, töfum á flugi eða öðrum almenningssamgöngum, vælandi krakka, eða bara öllum þessum þáttum samanlagt. Vegna þessa er hins vegar ánægjan sem fylgir því að komast á áfangastað, geta lagt frá sér töskurnar, sest upp í sófa eða lagst upp í rúm og jafnvel fengið sér einn kaldan (eða sterkan) þeim mun meiri. Auðvitað er ýmislegt sem getur vegið upp á móti farangrinu, eins og t.d. góðir ferðafélagar, eftirvænting fyrir því sem tekur við þegar á áfangastað er komið, góð bók eða tímarit getur stytt manni stundir í farartækinu. Næst þegar þið ferðist, sjáið hversu mikið farangur lætur á sér kræla, og við hvaða aðstæður.

Já...

ég var víst að útskrifast!

Ferðin var hin fínasta (fyrir utan farangrið, auðvitað). Gott var að knúsa Shonel aftur, hitta vinina og dúlla sér með fjölskyldunni. Læt myndirnar tala sínu máli.


Beðið eftir lest til að komast í London Eye


Komin ca. hálfa leið upp


Við hljótum að pirrað Guð lítillega, því hann sendi okkur eina svona


Skötuhjúin alveg að springa úr stolti!Svo var settur punktur yfir i-ið með ferð í Thorpe Park tívolíið síðasta daginn

fimmtudagur, september 06, 2007

Jákvæðni

Ég er að fara út á morgun. Það er útskrift á laugardaginn. Mamma, Pabbi og Lille Bro koma með og við dveljum ásamt Shonel í helvíti fínni orlofsíbúð, í byggingu þar sem er aðgangur að sundlaug, pool borði og fleiru. Ég var víst ekki búinn að monta mig af því á stafrænan máta að heildareinkunnin úr þessu námi náði fyrsta flokk, sem þýðir að útkoman úr lokaverkefnunum ógurlegu hefur bara verið helvíti fín.

Út í allt aðra sálma:

Ég hef dálítið gaman af pistlum sem birtast oft í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni "Hljóðfæri hugans", þar sem maður að nafni Njörður P. Njarðvík nöldrar yfir slæmri málnotkun í fjölmiðlum. Stundum hlær maður að aulavillunum sem hann er að benda á, en stundum finnst manni hann vera að agnúast út í ekki neitt. En allt í allt er alveg rétt að benda á þegar það fólk sem hefur atvinnu að því að tjá sig á hinu ástkæra ylhýra er ekki að gera það almennilega. Skál fyrir Nirði!