miðvikudagur, mars 28, 2007

Fastir liðir

frizbee er að fá kvíðakast enn og aftur. Lokaverkefnið er í krísu, þar sem ég er ekki tilbúinn með mikið efni, og Jason vill að sem mest verði á svipuðum nótum og flóknasti kaflinn, sem tók okkur 1/3 af æfingatímanum, en er aðeins ein og hálf mínúta að lengd. Strákarnir eru mjög hjálpsamir og koma með mikið af hugmyndum, en gallinn er að það er eiginlega ekki hægt að ákveða hvort eitthvað virkar eða ekki fyrr en það hefur verið prófað og keyrt nokkrum sinnum, og við höfum takmarkaðan tíma til að prófa hverja einustu hugmynd. Eins gott að ég stytti páskafríið mitt.

Ég hef aldrei haft mikið álit á Chuck Norris, þar til nú. Ég hafði eitthvað heyrt um þennan lista, en hafði aldrei komist í tæri við hann. Núna er uppáhalds hugtakið mitt "Roundhouse kick"!!!

mánudagur, mars 19, 2007

Rétt úr kútnum

Tók upp smá vídeó á einni æfingunni minni í síðustu viku og tók eftir því, sem ég hef svo sem tekið eftir áður, hvað ég er hokinn. Ég er kannski ekki neinn kroppinbakur, en þetta er ekki falleg líkamsstaða, og ekki eitthvað sem lítur vel út á sviði. Er núna alltaf með það í hausnum hvernig ég er að bera mig hverju sinni. Ef ég gat vanið mig á að anda niðrí maga, þá get ég vanið mig á þetta!

Fór með Snorra Hergli og nokkrum skólafélögum á sýningu hjá leikfélagi Peaders, fyrrum kennarans okkar, í gær og skemmti mér æðislega. Við það að sjá þessa sýningu vaknaði hjá mér ákveðin von. Málið er að í henni voru tvær stelpur sem útskrifuðust af ETA eftir síðasta skólaár, þannig að maður sér séns á því að fá kannski að vinna með goðinu sínu eftir útskrift. Það væri BARA kúl!!!

Lokaverkefnið, sem er búið að vera á dálitlum hægagangi undanfarið, virðist vera að sækja í sig veðrið, en enn er langt í land og engan veginn hægt að slá slöku við. Er alvarlega að íhuga að stytta páskafríið mitt í annan endann til þess að geta lagt inn smá aukavinnu með strákunum.

En jæja, Jason kennari kíkir á æfingu á morgun. Vonandi líst honum vel á vinnuna.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Noh!!!

Tilnefndur!

Má alveg kjósa ;)

Takk fyrir tilnefninguna Saethór!

sunnudagur, mars 11, 2007

Einfalt

Var að leita að heimildum um Philip Glass, og ágætis byrjunarreitur er Wikipedia (ég veit að það er ekki áreiðanlegasta heimild í heimi, en hún getur vísað manni í rétta átt. Allavega, ég tók eftir því að niðri til vinstri er hægt að velja um mismunandi tungumál og eitt þeirra er "simple english". Ákvað að tékka hver munurinn væri, og útkoman kom mér svolítið á óvart. Prófið bara að leita að Philip Glass og velja síðan simple english. Ég gerði ekki ráð fyrir að það yrði svona einfalt.

Við skötuhjúin kíktum með vinum okkar á Blue Man Group og skemmtum okkur alveg hreint stórkostlega. Kvöldið í heild sinni var líka helvíti notalegt þar sem við fengum okkur drykk fyrir og eftir sýninguna og löbbuðum yfir Thames áður en við náðum í síðustu lestina heim. Fattaði svo eitt: ég hef aldrei farið á "double date" áður :)

mánudagur, mars 05, 2007

Móment

Skrapp inn í miðborg um daginn til að hitta Einar stóra bróður og Steina vinnufélaga hans, sem voru í smá stoppi á leiðinni heim frá Madríd, þar sem þeir höfðu sótt fagsýningu á vegum vinnunnar. Hittingurinn var allur hinn skemmtilegasti, þótt hann hafi mátt vera öllu lengri, en félagarnir þurftu að vera með rænu um 6leitið um morguninn, þannig að ekki var hægt að sleppa af sér öllum beislum.

En "mómentið" átti sér stað áður en ég hitti á þá félaga: Ég var nýstiginn út úr Charing Cross lestarstöðinni þegar ein vinkona mín sendi mér sms til að spyrja hvort ég væri að horfa á tunglmyrkvann sem var í gangi. Þar sem Einar og Steini voru enn á sýningu Blue Man Group, og ég hafði tíma aflögu, stoppaði ég einfaldlega úti á stétt og byrjaði að glápa út í loftið. Ég var auðvitað var við fólk sem var forvitið um hvað ég væri að horfa á, og leið eins og ég væri að taka þátt í falinni myndavél. En smátt og smátt fóru sumir að staldra við og horfa á fyrirbærið með mér. Mér finnst alltaf gaman af þessum sjaldgæfu augnablikum þegar maður deilir einhverju sérstöku með ókunnugum.

föstudagur, mars 02, 2007

Stórir draumar!

Undanfarið hef ég fyllst von (mér fannst "bjartsýni" ekki vera rétta orðið). Það er ýmislegt sem hefur drifið á daga mína sem hefur aukið trú mína á framtíð íslensks samfélags, og möguleika á því að forða því frá versnandi lífsgæðum. Fyrir stuttu síðan las ég frétt á mbl.is þar sem sagt var frá tilraunaverkefni þar sem minniháttar afbrotamenn og fórnarlömb þeirra eru leidd saman og þeim gefið tækifæri á að kynnast aðstæðum hvors annars. Sökudólgurinn fær að kynnast manneskjunni sem hann braut á og þeim afleiðingum sem brotið hafði í för með sér, og fórnarlambið fær að kynnast manneskjunni sem braut á því. Svo annað hvort koma aðilarnir sér saman um refsingu við hæfi, eða þá að sá brotlegi fær einfaldlega sína meðferð í réttarkerfinu. Þetta á víst að prófa í tilraunaskini í 2 ár og sjá hver útkoman verður. Ég hef trú á þessu, þetta mun örugglega samt ekki virka á harðnaða glæpamenn, en þeir sem eru að stíga sín fyrstu spor á glæpabrautinni gætu kannski fengið eitthvað gott út úr þessu. Ég geri mér grein fyrir því að sumir gætu, og munu örugglega reyna að misnota þetta og þykjast iðrast gjörða sinna fyrir vægari refsingu, en við verðum að sjá til. Fangelsi virkar ekki nærri því alltaf, það vitum við öll.

Svo er þetta visst fagnaðarefni. Ég held að einhverjir séu farnir að sjá að það þýðir ekkert að bæta við endalausum slaufum og mislægum gatnamótum. Það þarf að hvetja fólk til að nota strætó. Þetta er góð byrjun. En það mætti líka leggja pening í að bæta kerfið, því margir sem ég hef rætt við segjast myndu með glöðu geði nota strætó, ef þau þyrftu ekki að eyða klukkutíma í þremur mismunandi vögnum til að komast á leiðarenda. Gott mál.

Í gær (heyrðu já, gleðilegan bjórdag!) mætti ég í annað skiptið á málfund með manni sem heitir Ben Thomas (sá hinn sami og talaði um svörtu klönin í Skotlandi í denn). Þar sem rætt var um eðli og réttmæti "svarts leikhúss". Ég ætla ekki að fara út í hvað fór fram nákvæmlega, því það tæki allt of langan tíma. En út frá þessu fylltist ég... tjah... hugsjónarhita, og fór að spá: væri ekki upplagt fyrir áhugaleikfélögin að bjóða nýbúum að taka þátt í starfsemi þeirra? Þá er ég ekki að tala um endilega að flagga þjóðerni sínu eða "segja sögu sína", heldur bara að gera þau sýnilegri á jákvæðan máta; gefa þeim tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á starfsemina og sýningarnar. Einnig hef ég spáð í hversu mikið er verið að gera í skólum og framhaldsskólum landsins. Er eitthvað svona "theatre in education" í gangi að einhverju ráði heima? Ef ekki, þarf ekki að efla svoleiðis starfsemi, aðallega til að sýna þeim sem fynnst að sér sótt að það eru einhverjir á þeirra bandi (mér finnst oft kærleikaáróður ná frekar stutt með þá sem eru búnir að gera upp hug sinn um að hata aðra).

Mikill fjöldi þjóða glímir við innflytjendavandamál. Innflytjendum fjölgar á ógnarhraða á Íslandi það hafa átök skapast vegna árekstra innfæddra við nýbúa. Er nokkuð vit í að bíða þangað til að við eigum við svipað vandamál að stríða? Leikhúsið leysir auðvitað ekki allan vandann, en þetta er bara ein hugmynd sem gæti hjálpað til.

og allir saman nú: I'd like to build the world a home/and furnish it with love...