mánudagur, janúar 29, 2007

Nú líður mér betur

Celebrity Big Brother tók enda í gær, sem þýðir að ég er búinn að fá morgunsjónvarpið mitt aftur, sem og að ég þarf ekki að forðast stofuna milli 9 og 10 á kvöldin (já, CBB var á dagskrá TVISVAR Á DAG!!!) Ég tók eftir því að fréttir af "atvikinu" (nokkrir þáttakendurnir létu orð fjalla sem teljast ekki beint pólitískt rétt um indverska þáttakandann) í þáttaröðinni náðu til Íslands, þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig umföllunin er búin að vera hérna úti.

Laugardagurinn var hinn ágætasti. Ég fór inn í miðborg og var á flakki í nokkra tíma, sem getur stundum verið dálítið stressandi, sérstaklega ef ég er mikið að taka neðanjarðarlestirnar, en ég lét verða af því fyrir nokkru að fá mér nýjan síma, og skoppaði því um allt með eyrun full af tónlist. Lét það ekki einu sinni á mig fá að ein lestin sem ég ætlaði að taka væri pakkfull og ég þurfti að bíða eftir næstu. Hefði átt að vera löngu búinn að þessu.

2 vikur eftir af Kantor, pólskum leiklistargúrú sem var örugglega sinn eiginn stærsti aðdáandi (nenni ekki að lýsa honum nákvæmlega), svo byrjum við á lokaverkefninu. Ef ég heyri aldrei á þennan mann minnst aftur, þá dey ég hamingjusamur maður!

mánudagur, janúar 15, 2007

Tengingin er komin

Þá erum við skötuhjúin loksins tengd við veraldarvefinn á heimili okkar og ég get aukið samskipti mín við vini og vandamenn heima.

Við kíktum á Kneehigh á laugardagskvöldið og sáum tjáningu þeirra á ævintýrinu um Rapunzel. Þvílíkir snillingar!!! Það er ótrúlegt að maður sé ekki búinn að drulla sér fyrr á sýningu hjá þeim, en það er skrýtin regla sem gildir um lífið hérna úti: þegar það er svo ótrúlega margt fyrir mann að gera, þá endar það einhvern veginn með að maður gerir ekki neitt. En allavega, svona leiklist langar mig að búa til. Ekki eingöngu, en mestmegnis. Svo mikil tónlist og sköpunargleði, og bara skemmtun. Erfitt að segja til um hvor hópurinn er að skemmta sér betur, áhorfendurnir eða leikararnir. Og er það ekki ástæðan fyrir því að maður er að þessu, að hafa gaman af vinnunni sinni?
Gluggaði í viðtal við William H. Macy þar sem hann segir að leikarastarfið sé “lokað” starf. Hann talar um hversu heftur maður sé sem leikari þar sem maður hefur lítið sem ekkert að gera með sköpunarferlið, það sé starf leikstjórans og handritshöfundarins. Voðalega er Kaninn eitthvað þröngsýnn þegar að það kemur að leiklist. Er alltaf jafn feginn að hafa skipt af American Theatre Arts yfir á ETA.

27. jan verður stór dagur hjá mér. Fer að hitta frú Hayley Carmichael, sem er einn af stofnendum Told By An Idiot, til að fræðast um leikfélagið hennar... og vonandi að heilla hana upp úr skónum svo hún bjóði mér hlutverk í framtíðinni ; )
... svo er Shonel að halda upp á afmælið sitt á bar í Soho um kvöldið. Gamangaman

Vatnshitarinn í íbúðinni okkar bilaði í síðustu viku. Fengum mann í heimsókn sem lagaði hann í gær... sem er ekki frásögu færandi í sjálfu sér. Nema hvað að maðurinn – hitakútsviðgerðarmaðurinn – heitir Kelvin!!!

fimmtudagur, janúar 04, 2007

*andvarp*

Nú eru liðnir 7 tímar síðan ég kom á flugvöllinn...

aðeins 2:20 eftir...áætlað

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Jæks!!!

Ég held að ég verði að senda Huld, Sigga, Bergþóru og auðvitað Álfheiði litlu sérstakar nýárskveðjur! Seisei já!

mánudagur, janúar 01, 2007

ÁRIÐ!!!

frizbee óskar öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs, og þakkar fyrir samveruna og lesturinn á liðnu ári!

(...ég myndi setja einhverja nýárslega mynd, en blogger er drasl, þannig að ég sleppi því að rembast við það.)