þriðjudagur, júní 27, 2006

Ég er svo ríkur...

...að ég hef efni á að versla ný jakkaföt fyrir lokaballið! Reyndar voru þessi jakkaföt keypt í góðgerðabúð á rúman 2000 kall, en það er bara smáatriði. Einn félagi minn úr bekknum mínum sagði mér frá þessari óopinberu keppni sem mun fara fram um hver geti mætt á ballið í flottasta dressinu fyrir undir 20 pund. Reglurnar eru þær að menn verða að kaupa skyrtu, bindi, buxur og jakka, en maður má nota skó sem maður á fyrir. Einnig er leyfilegt að notast við fylgihluti eins og bindisnælur, hatta og svoleiðis. Mikið vildi ég að ég ætti myndavél til að ná mynd af hvað allir verða flottir á ballinu...

föstudagur, júní 23, 2006

Stóri Bróðir

Af hverju...?
Af hverju?Afhverju?Afhverju?

AF

HVERJU

...horfir fólk á fokking Big Brother hérna úti? (fyrir þá sem ekki vita, þá er big brother þáttur þar sem hópi af athyglissjúkum hálfvitum er troðið inn í hús fullt af myndavélum og alþjóð fylgist með þeim, slefandi yfir því að fá að vita hver er skotin/n í hverjum og hver hatar hvern/hverja)

Það er kannski óþarfi fyrir mig að spyrja af hverju fólk horfir, því flestir sem ég spyr segja það sama: "Það er svo gaman að sjá hvað þetta fólk er bilað". Er fólk almennt orðið svo óöruggt með sjálft sig að það þarf að fylgjast með félagslega þroskaheftu fólki gera sig að fíflum fyrir alþjóð til þess að líða betur með sjálft sig? Ég er svo sem ekkert betri en aðrir þegar kemur að því að tala illa um sumt fólk og lýsa því óbeint yfir að "ég er allavega ekki eins og þessi", en ég tek mér ekki tíma til þess að horfa á þetta lið í sjónvarpinu! Oftast, ef einhver fer í taugarnar á mér, þá forðast ég að þurfa að sjá eða heyra í viðkomandi. Þarf í alvörunni að skrapa botninn í þróunartunnunni og sjónvarpa afrakstrinum til að skemmta fólki? Finnst fólki í alvörunni svona sárt að hugsa aðeins? Ég er ekki að biðja um hámenningarlega dagskrá 24/7, en bara eitthvað sem krefst þess að maður sé ekki heiladauður til að skilja það.

Æi, ég ætti ekki einu sinni að eyða púðri í að nöldra yfir þessu, finnst ég bara hljóma eins og gamall og bitur maður þegar ég geri það.

Klára hönnunarverkefnið á morgun... JEIJ!!!!

laugardagur, júní 17, 2006

Bjór á loftinu

Horfði á enska landsliðið keppa við Trinidad & Tobago í gær. Slappt þetta enska lið, voru reyndar meira og minna í sókn, en gátu einhvern veginn ekki drullað boltanum inn fyrr en þarna í lokin. Gaman af stemmningunni sem myndast þegar bretar koma saman að horfa á fótbolta, fólkið syngur og öskrar eins og einhver séns sé á því að liðið heyri til þess og svo þegar boltinn aulast yfir línuna þá er öllum sama hvað þeir eru með í höndunum þegar þeim er flengt upp í loft, og fólki er meira og minna sama þó hálfum lítra af bjór sé skvett á það. Venjulega væru menn lamdir fyrir slíka hegðun, en ekki þegar England skorar.

Fór á ströndina í dag, synti í sjónum og sólaði mig með fjórum bekkjarsystrum ;). Góður dagur, en tvennt skyggir all rosalega á minninguna: annars vegar er ég all svakalega sólbrunninn eftir daginn, og svo tókst mér einhvern veginn að skilja fokking myndavélina mína eftir á ströndinni!!!

HELVÍTIS!!!

þriðjudagur, júní 06, 2006

Á einhver pening?

...svo ég geti verið í London í 10 daga í viðbót.
Einn af 3. árs leikstjórnarnemendunum greip mig á skólalóðinni og spurði mig hvort ég væri nokkuð að drukkna í verkefnum síðustu vikuna fyrir skólaslit. Ég svaraði því neitandi og fékk fiðring í magann yfir því að hann væri að fara að bjóða mér að vera með í einhverju spennandi. En þá kom það á daginn að þetta litla verkefni verður sýnt þann 13. júlí n.k., og ég kem heim þann þriðja. Gaman hefði verið að taka þátt, aðallega til að reyna að ganga í augun á þessum manni, þar sem ég get vel ímyndað mér að hann eigi e-s konar feril framundan, og þá væri gott að vera í símaskránni hans...

...djöfull

sunnudagur, júní 04, 2006

Aaaaahhhh : )

Leikstjórnarverkefni lokið! Áhorfendum líkaði víst það sem þeir sáu og það er góð tilfinning út af fyrir sig. Nú er bara að vita hvort Jason sé á sömu skoðun...

Naut þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu yfir helgina: Kíkti á pöbbinn á föstudagskvöldið með nokkrum úr bekknum, eins og lög gera ráð fyrir þegar áfanga sem þessum er náð; fór með Shonel til Covent Garden í gær til að halda almennilega upp á að við höfum verið saman í eitt ár, átum góðan mat, horfðum á götulistamenn, fórum í leikhús og spiluðum Monopoly á pöbbnum fyrir ofan leikhúsið eftir á :)

En stórfrétt dagsins er sú að frizbee spilaði fótbolta í dag. Engin slys urðu á fólki (Hörður á örugglega erfitt með að trúa því), og kallinn skoraði meira að segja mark og lagði upp tvö önnur, seisei já.

Á morgun byrjum við svo á hönnunarverkefninu sem, eftir því sem ég hef heyrt, er ekki eins stressandi og leikstjórnarverkefnið.

Svo er bara mánuður í heimkomu. Allt of fljótt að líða!