sunnudagur, maí 28, 2006

da big two seven!

Afmælisdagurinn fór nokkuð vel fram, og ég finn lítið fyrir þessu auka ári. Leikstjórnarverkefnið virðist vera á réttri braut þar sem Jason lagði aðeins til nokkrar fínpússanir sl. fimmtudag.

Við skötuhjúin skruppum inn í London í gær og hittum hana Sif, fyrrverandi hans Árna Gunn, og settumst niður í smá spjall, sem var bara helvíti fínt. Þurftum svo að drífa okkur niður á Leicester Square til að sjá X-Men: The Last Stand, sem olli okkur ekki vonbrigðum, síður en svo! Þetta er auðvitað ekkert stórvirki í kvikmyndasögunni, bara hrein og óblönduð skemmtun.

Stebbi, nýbakaður móðurbróðir, og Katrín mæta í borgina í dag. Jibbíííí!

miðvikudagur, maí 24, 2006

Smá stress

...en ekkert miðað við það sem var um helgina!

næstsíðustu viku leikstjórnarverkefnisins fer að ljúka, og ég veit ekkert hvað ég er með í höndunum. Þegar kennarinn kom að sjá hvernig gengi hjá mér síðasta fimmtudag, þá lét hann mig vita að þær aðferðir sem ég var að beita voru ekki að virka og að ég þyrfti að hugsa atriðið upp á nýtt. Var fljótur að breyta um taktík, en þá vildi ekkert ganga. Var við það að fá magasár þegar stíflan gaf sig loksins í gær, og nú er þetta allt að fá á sig ágætis mynd. Veit bara ekki hvað Herra Jason Arcari mun segja um vinnuna á morgun. (GÚLP)

óskið mér góðs gengis

laugardagur, maí 20, 2006

Tónlistarklukk

Eins og hann Andri, þá var ég orðinn frekar leiður á þessum klukkleikjum, en ég get nú ekki staðist þetta.

1. Með hvaða hljómsveit eða flytjanda áttu flestar hljómplötur?
Pearl Jam og Radiohead - 8 stykki á hljómsveit, reyndar er Radiohead með eina EP plötu þarna: My Iron Lung

2. Hvað var síðasta lagið sem þú hlustaðir á?
Disposition með Tool.

3. Hvaða hljómplata er mest á fóninum hjá þér þessa dagana?
Var að fá 10.000 Days með Tool í hendurnar, þannig að hann á eftir að vera á nær stöðugri keyrslu næstu vikurnar.

4. Spilarðu á eða langar þig að læra á eitthvað hljóðfæri?
Ég spila á bassa, og það er eiginlega eina hljóðfærið sem ég get eitthvað á, en dútla aðeins við gítar, djembe trommu, munnhörpu, gyðingahörpu, melódikku o.fl.

5. Hver er uppáhalds íslenska hljómsveitin þín?
Verð bara að vera sammála Andra þarna - Jagúar, Hjálmar og Sigur Rós... og Hoffman, auðvitað :) ... og Ampop

6. Hvaða hljómsveit sástu síðast á tónleikum?
dEUS á NASA

7. Hvað er bestu tónleikarnir sem þú hefur séð?
RATM í kaplakrika, Nick Cave & The Bad Seeds og Beck í London.

8. Hver er lélegasta hljómsveit sem þú hefur séð á tónleikum?
hmmmm... erfitt að segja, svo ég segi ekki neitt

9. Hefurðu verið í hljómsveit?
Nokkrum, þær sem fengið hafa nafn eru, í réttri tímaröð: Rattatti - með Rúnari Karls, Unnþóri og Didda Viktors, D-7, Whole Orange - lítið ballband sem ég spilaði með í Rvk og gerði meðal annars frægðarför til Tálknafjarðar, að mig minnir, og Hoffman

10. Hvaða tónlistarmann, bæði dáinn og lifandi, myndirðu helst vilja hitt?
Dave Grohl - aðallega út af því að hann virðist bara vera svo rosalega kammó og almennilegur gaur (langar ekkert sérstaklega að kynnast fólki bara út af því að það er frægt) og svo John Lennon.

11. Hvaða tónleikar eru á döfinni sem þú hlakkar til að sjá?
Er ekki með neina tónleikaferð planaða, en Tool eru að spila í London í júní og það hefði verið gott að vita af því í tíma svo maður hefði getað orðið sér út um miða.

12. Hver er uppáhalds tónlistarbolurinn þinn?
Moby bolurinn minn, er enginn aðdáandi, finnst litla eðjótið framan á honum bara svo flott

13. Hver er elsta tónlistarminning þín?
Að hlusta á vínilplötur mömmu og pabba í stofunni heima og dilla mér við slagara á borð við "Maria Magdalena" og "Rock Me Amadeus"

14. Hvaða tónlistarmaður eða tónlistarkona myndirðu vilja að væri ástfangin(n) af þér?
Einu sinni var ég skotinn í Gwen Steffani, en það var áður en hún varð sykurpopphóra (sorry Gwen, it can never be), en núna myndi ég ekkert hrinda Aliciu Keys í burtu, né heldur Meg White.

15. Hvaða tímabili sem tónlistarunnandi ertu ekki stoltur af?
Ég hlustaði mikið á Stjórnina þegar hún var upp á sitt "besta"

16. Hvort hélstu með Blur eða Oasis á sínum tíma?
Maður var í vinahóp með Óla Guðmunds, og því komst Oasis eiginlega bara að, en þegar ég lít til baka þá var Blur miklu fjölhæfari og skemmtilegri hljómsveit

17. Hvaða þrjár hljómsveitir myndirðu kalla þínar uppáhalds?
Hmmm... Pearl Jam, Radiohead og... ætli ég verði ekki að segja Red Hot Chili Peppers

18. Hver er uppáhalds hljómplatan þín í plötusafninu þínu?
Þessa stundina er það Frances The Mute með Mars Volta

19. Hvaða áratugur í tónlistarsögunni var bestur?
Áttundi áratugurinn, skil ekki af hverju svo margir sjá bara diskó og ABBA þegar þeir heyra minnst á hann.

20. Hvað er uppáhalds kvikmynda sándtrakkið
þitt?
O brother where art thou og Judgement Night
O Brother, Where Art Thou?, Garden State og Thrashin'.

föstudagur, maí 19, 2006

Ameríska menntakerfid virkar...

...ekki alveg

laugardagur, maí 13, 2006

Leikstjórnarverkefni: vika 1

Jæja, fyrstu vikunni lokið, og hlutirnir ganga svona upp og niður. Ein stúlkan úr hópnum hefur ekki mætt alla fyrstu vikuna vegna persónulegra og/eða akademískra vandamála, og við sem eftir erum höfum fengið þær leiðbeiningar að halda áfram eins um þriggja manna hóp sé að ræða. Til allra hamingju erum við öll með leikrit sem auðveldlega má heimfæra á tvær persónur í staðinn fyrir þrjár, þannig að ekkert okkar komst í neinn bobba vegna brottfallsins. Ég er hins vegar í vandræðum með leikstjórnina. Ég veit hvernig ég vil setja þetta upp, hvernig samband ég vil að sé á milli persónanna og allt það. En þetta er ekki hreint og beint “hvernig leikstjóri ertu?”-verkefni, heldur eigum við að haga leikstjórn okkar eftir kenningum og aðferðum leikhússgúrúa sem vekja áhuga okkar, og þegar atriðið okkar er svo sýnt, eigum við að halda litla tölu um það hvað hafði áhrif á leikstjórnina og blablabla, og ég er ekki búinn að finna aðferðir og kenningar sem heilla mig hvað leikstjórnina á þessu ákveðna verki varðar. En það er nógur tími og ég er að vona að Eugenio Barba hafi einhver svör handa mér.

Síðastliðna þrjá daga fengum við að sjá nýjar þýðingar á nýlegum spænskum leikritum. Svo virðist vera að eftir tíð Lorca og Valle Inclan hafi lítið verið þýtt af spænskum leikritum og spænsk leikskáld litla athygli fengið í Bretlandi sem og víðar. Emilio yfirkennari er einn þeirra sem eru að vinna í að breyta þessu og er þetta annað árið í röð sem ný spænsk leikrit eru lesin í leikhúsi Rose Bruford. Fyrsta kvöldið var helvíti fínt, þó leikritið sem verið var að lesa hafi verið svo mikil langloka að aðeins fyrri hlutinn var fluttur... og tók það heila tvo tíma. En flott var það. Held að ég myndi alveg fást til að mæta á það og sitja sáttur við mitt í 4-5 tíma.
Annað kvöldið var heldur síðra. Leikritið tók einn og hálfan tíma í fluttningi en mér og, að mér sýndist, öllum öðrum fannst eins og heill sólarhringur hefði liðið þegar það loksins tók enda. Leiðinlegt leikrit um leiðinlegt fólk sem var einu sinni hamingjusamt en er nú óhamingjusamt út af því að það fylgdi ekki hjartanu í denn. Hljómar kunnuglega? Þegar halla fór á síðari hluta lestursins spurði óhamingjusami karlinn óhamingjusömu kellinguna “þú þarft drífa þig bráðum til að ná rútunni, er það ekki?”. Hún jánkaði því og á því augnabliki fann ég í mér nær óstjórnlega löngun til þess að rjúka upp úr sætinu mínu og öskra “drullaðu þér á af stað, kerlingartuðran þín!!!”... en ég sat á mér. Á föstudaginn var hins vegar allt annað hljóð í kútnum og við fengum að sjá ekki bara lestur, heldur fullblokkeraða æfingu með proppsi og öllu, og leikararnir létu handrit í annarri hendi ekki trufla sig eitt stundarkorn, eftir eins dags vinnu! Leikritið heitir Hvar ertu, Ulalume, hvar ertu? (¿Dónde estás, Ulalume, dónde estás?) og er eftir Alfonso nokkurn Sastre, sem hefur víst verið í fremstu röð spænskra leikskálda í áratugi. Leikritið fjallar um síðustu vikurnar í lífi Edgar Allan Poe, nánar tiltekið þrjá ákveðna daga sem enginn veit hvað varð um hann þangað til að hann fannst viti sínu fjær úti á túni í Baltimore og lést síðan nokkrum dögum seinna á geðsjúkrahúsi. Ég vona svo sannarlega að til sé íslensk þýðing á þessu æðislega stykki, og ef svo er ekki, þá að einhver fáist til að þýða það eins og skot, og koma því helst í hendur einhvers áhugaleikfélagsins... eða Ágústu Skúla.

ÆÐI GÆÐI!

Bylting!!!

Snillingunum hjá Wilkinson Sword hefur tekist það sem engum öðrum hefur tekist: að troða fjórða blaðinu í raksköfurnar sínar!!! Færustu vísindamenn heimsins standa á gati yfir því hvernig þetta var hægt, en meðaljóninn lætur sér fátt um tæknilegu hliðina finnast, heldur gleðst einfaldlega yfir því að þurfa ekki að líða vítiskvalir meðan hann fjarlægir óvelkomin andlitshár.
Gott fólk, er þetta ekki orðið ágætt? Ég viðurkenni fyllilega að ég hafi látið gynnast þegar Mach3 “byltingin” átti sér stað, en ég vil nú meina að ég sé ekki algjör blábjáni og læt það því vera að rjúka út í búð til þess að ná mér í Wilkinson Sword Quattro.

laugardagur, maí 06, 2006

Já... veistu... nei takk

Ég held ég eyði peningunum mínum í eitthvað annað

miðvikudagur, maí 03, 2006

Óþarfa bras

Eftir að hafa spáð og spekúlerað í Á Rúmsjó síðan fyrir jól, og gengið í gegn um allt brasið sem fylgdi því að koma höndum mínum yfir eintak af þessu ágæta leikriti, komst ég að því að við þurftum að vera með tvö leikrit í höndunum svona djöst in keis ef fyrra valið væri ekki einhverra hluta vegna ákjósanlegt. Leitin að varaleikriti var frústrerandi og stressandi, en ég fann að lokum hið fínasta leikrit eftir Martin nokkurn Crimp sem heitir Attempts on her life. Svo fínt var það reyndar, að ég gerði það að aðalvali mínu og hefði því getað sleppt öllu brasinu sem fylgdi Á Rúmsjó.

...eða kannski ekki. Kannski hefur þetta einhvað með glundroðakenninguna að gera. Ef ég hefði ekki verið að leita að Á Rúmsjó fyrstu vikuna í skólanum, kannski hefði ég rekist á eitthvað annað leikrit sem er ekki eins gott og Attempts on her life. Kannski hefði ég fundið eitthvað enn betra! Guð minn góður, ÓVISSAN ER AÐ DREPA MIG!!!!!