miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Hæ hó og jibbí jei...

það er að koma 24. febrúar!!! Þjóðhátíðardagur Eista, sem þýðir frí í skólanum, sem þýðir að ég hef tíma til að skreppa til London og hitta krúsídúlluna mína!

Æfingar eru hafnar á leikritinu okkar, og mikið skemmtilegt er að ske í þeim efnum, vonandi verður þetta eitthvað sem maður lærir sem mest á. Svo erum við núna búin að hafa akróbatíktíma síðustu þrjár vikur, og við erum farin að henda okkur ofan af stólum og borðum með miklum þokka og merkilega lítið hefur verið um hnjask. Annars er kennarinn okkar (sem talar nær enga ensku og er oftast með túlk með sér í tímunum) mjög hæfur og lét það ekkert slá sig út af laginu þótt ein stúlkan hafi fengið smá högg á hnakkann og fann þessi ósköp til, hún var látin setjast og slaka á, hausinn tekinn traustum höndum, smá snúningur og hnykkur upp á við og þá var allt búið.

Miklar umræður hafa spunnist milli okkar að kúrsinn sé ekki alveg að virka, þar sem Emilio er frekar linur þegar kemur að því að halda uppi aga hjá fólki, og leiðindapúkarnir tveir fá víst að vera áfram með því skilyrði að þeir skili inn einni ritgerð hvor. Ég er með vissar áhyggjur af því að fyrst svona fólk fær að vera áfram þá þýða þær ágætu einkunnir sem ég er búinn að fá hingað til ekki eins mikið og ég hélt í fyrstu. Sú ákvörðun hefur hins vegar verið tekin að vinna bara af fullum krafti og láta svo bara verkin tala þegar ég útskrifast.
Sound like a plan?

Já, ég er núna kominn með Skype og höfuðtól, þannig að þeir sem búa eins vel geta haft samband við mig í gegn um það. Notendanafnið mitt er frizbee79. Heyrumst!

sunnudagur, febrúar 12, 2006

They don’t make’em like they used to

Las gagnrýni í Empire kvikmyndatímaritinu á nýlega heimildamynd um íslenska tónlist sem heitir Screaming Masterpiece. Gagnrýnandinn er lítt hrifinn af myndinni sem slíkri (en segir þó ekkert um álit sitt á tónlistinni, enda er það ekki hans starf) og gefur henni aðeins 2 stjörnur af 5 mögulegum. Ég ætla ekkert að tjá mig um téða mynd þar sem ég hef ekki séð hana. En eitt vakti þó athygli hans, og fynnst mér rétt að vitna í greinina:
“Halfway through, Alexander incorporates some fascinating clips from a 1981 documentary about Iceland’s punk scene. As a man with a mohawk dementedly swings an axe into a guitar, you’ll wish you were watching that film instead.”
Gaman væri að sjá upplitið á þessum gagnrýnanda ef hann fengi að sjá Rokk í Reykjavík og vita nákvæmlega hversu rétt hann hafði fyrir sér.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Eftirvænting

hér ríkir eftirvænting eftir hinu og þessu. James, leiðindapúki númer eitt fór s.l. laugardag og Adam, lp.#2, er að fara á mánudaginn, en mamma hans er víst að koma í heimsókn á morgun, þannig að við gætum verið laus við hann frá og með morgundeginum.

Við erum búin að fá leikritið, sem við munum setja upp, í hendurnar. Þetta er eistneskt leikrit og titillinn er eitthvað í áttina að "Gleðilegan Hversdag", erfitt fyrir okkur að segja hvort eitthvað sé varið í það, þar sem við erum flest komin hálfa leið með lesturinn á því, en þetta gæti vel verið skemmtilegt þegar allt er komið á sinn stað.

Ég er búinn að merkja 16. mars inn á dagatalið hjá mér! Tók upp túristabækling á einu gistiheimilinu hér í borg meðan að Dan var að panta herbergi fyrir pabba sinn, og komst að því að Depeche Mode eru að fara að halda tónleika á fyrrnefndum degi!!! Við erum allavega tvö sem erum ákveðin í að fara, svo lengi sem maður verður ekki búinn að klára allan pening áður...

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Lífið verður stöðugt betra

Fyrsti hluti þessarrar færslu er skrifaður á laugardaginn síðastliðinn

...þótt mennirnir sem ég var að væla yfir séu enn þá jafn erfiðir, þá erum við búin að finna okkur ýmislegt til þess að stytta okkur stundir þegar við erum ekki í skólanum. Ég og Daniel, vinur minn, erum búnir að finna nokkrar billjardstofur og, með hjálp tveggja vinalegra Eista (tíhí), erum við búnir að læra að spila rússneskan billjard, sem er erfiðari en andskotinn!!! Borðin eru jafn stór og snókerborð, en vasarnir eru þrengri, og kúlurnar eru á stærð við venjulegar billjardkúlur. En auk þess erum við líka búnir að finna stofu þar sem við getum spilað snóker, og við munum væntanlegar eyða stórum hluta frítíma okkar þar... sérstaklega þar sem klukkutíminn kostar aðeins 300 kall : )

Síðasta föstudag fór ég með nokkrum úr hópnum á skauta, og stóð mig bara nokkuð vel miðað við að þetta væri fyrsta skiptið mitt: datt aðeins þrisvar sinnum, og aldrei beint á rassgatið. frizbee er stoltur!

fimmtudagur, 2. febrúar

félagsskítarnir eru á förum!!! Sem þýðir að við hin getum loksins farið að njóta þessarar frábæru reynslu til fullnustu. Ég veit að það er ekki vottur um mikinn náungakærleik að fagna brotthvarfi fólks, en þeir voru bara svo ÓGEÐSLEGA erfiðir, leiðinlegir og lélegir að það kom hreinlega niður á vinnu þeirra sem lentu með þeim í hóp.

Stór áform framundan: Mardi, leiklistarkennarinn okkar hérna úti, er búin að bjóðast til að fara með okkur út fyrir Tallinn í útjaðar borgar sem heitir Tartu, og eyða með okkur tveimur dögum í sumarbústað úti í náttúrunni og vera með kennslu þar. Mikil spenna. Auk þess er ég búinn að finna tíma til að skreppa til London og hitta Shonel í tvo daga, sem er vægast sagt yndisleg tilhugsun.

Í stuttu máli: allt á uppleið og lífið leikur við frizbee. Að lokum óska ég Siggu Láru innilega til hamingju með litlu dramadrottninguna hennar og vona að hún fari ekki of langt yfir strikið á fyrsta fylleríinu sínu, sem ætti ekki að vera of langt undan núna : D