þriðjudagur, janúar 24, 2006

Bara svo fleiri geti lesið þetta...

Varríus linkaði á þetta, og það vil ég gera líka. Ef þið sjáið eitthvað sem ykkur þykir vera þess virði að fólk lesi, þá setið hlekk á það!!!

Skin og skúrir

Það er fíla í herberginu okkar!
Við erum fimm karlmenn sem deilum herbergi og tveir okkar eru af félagslega vanhæfari toganum. Annar er hrokagikkur sem þykist allt vita, finnst flest sem kennt er á kúrsinum asnalegt (en drullast einhverra hluta vegna ekki af honum), og er mæting hans eftir því, finnst flestur matur sem fæst hér "vitlaust gerður" og fer því á McDonalds í flestum hádegishléum(!!!). Hinn er rúmlega fimmtugur fyrrverandi fíkill sem virðist vera að rembast við að endurheimta æsku sína og er meistari í heimskulegum pælingum og spurningum, auk þess sem hann er vitavonlaus leikari, og því er öllum það hulin ráðgáta af hverju hann er enn þá á kúrsinum. Persónugerð þessarra tveggja var að vísu löngu þekkt og því ákveðið á reyna að umbera sambúðina með þeim, og guð veit að við höfum reynt. Nú er svo komið að herbergið okkar lyktar eins og svínastíja út af því að þeir eru hræddir við að fá lungnabólgu eða eitthvað þaðan af verra ef glugginn er opnaður og hitinn dettur niður fyrir 10 gráður á celsíus. Þeim er lífs ómögulegt að skilja að þegar kemur að svona sambúð þá gengur hagur meirihlutans fyrir, og við hinir þrír erum að missa þolinmæðina.

En nóg af væli!
Nokkur okkar héldum út í leit að skautahöll sem átti að vera við hafnarsvæðið hér í borg. Hún fannst, en var því miður lokuð. En það gerði lítið til því byggingin sem hýsir hana er með nokkuð sérstæðu móti: risastór og tröppur liggja upp á hana þar sem fólk getur rölt um og notið útsýnisins.

...og hvílíkt útsýni!!!

laugardagur, janúar 21, 2006

Fínasta veður

Fyndið. Ég við vorum að krókna úr kulda hér um daginn í -16°, svo datt hitinn niður fyrir -20 í tvo daga, og í gær var okkur sagt að hitinn færi niður fyrir -30 í dag. Þegar ég og Dan, vinur minn, stigum út fyrir í morgun fannst okkur veðrið vera bara nokkuð notalegt. Þegar ég tékkaði á veðrinu á netinu áðan sáum við að það var aðeins 17 stiga frost! Skemmtilegt hvað maður er fljótur að venjast hlutunum. Svo spilar kannski inní að maður var búinn að búa sig andlega undir -30 stigin.

Við erum endalaust að rekast á fallegar byggingar, svo eru svo margir veitingastaðir og fleira sem eru í spes húsakynnum. Verst að ég er alltaf að gleyma myndavélinni heima. Við fengum kynnisferð um eistneska þinghúsið í fyrradag, sem okkur þótti merkilegast fyrir þær sakir að inni í því er andyri sem hefur að geyma einn magnaðasta hljómburð sem ykkar einlægur hefur heyrt.

Andyrið er u.þ.b. 8 metrar, horn í horn, og ef maður svo mikið sem hvíslar í eitt hornið, þá heyrir manneskja sem stendur í horninu á móti það eins og maður standi við hliðina á þeim. Saga byggingarinnar var svo sem sæmilega áhugaverð og allt það, en við bara gátum ekki fengið nóg af því að hvísla dónalegar athugasemdir að hvort öðru af 8 metra færi. Á móti þinghúsinu er ekki síðri bygging. Gömul rétttrúnaðarkirkja sem við tókum þannig séð ekki eftir, fyrst þegar við löbbuðum fram hjá henni fyrsta daginn. Það var ekki fyrr en ég bakkaði lengra frá henni að við sáum dýrðina.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Frosin nefhár!

úúúúfffff!

"Hitinn" er -16°C og vindurinn þýtur á 18 metrum á sekúndu úr austri!!! Nú er gott að hafa fengið svona gott flísföðurland frá henni Ömmu, svo ekki sé minnst á hanskana frá Birnu og dætrum og trefilinn frá Kristjáni stóra-litla bróður. Fyrstu dagarnir í skólanum eru búnir að vera nokkuð ljúfir. Kennararnir okkar eru að vísu missleipir í ensku, en bæta það upp með að vera þeim mun betri þegar að almennri kennslu kemur.

Eins og getið var í síðustu færslu, þá áttum við að mæta á sýningu útskrifarnema á Kirsuberjagarðinum, sem reyndist bara helvíti áhugaverð og skemmtileg, þó maður vissi ekkert hvað væri að gerast. Rýmið var nýtt að skemmtilegan máta og fólk var að leika í fjórum hornum bak við gegnsæ tjöld meðan áhorfendur sátu allt í kring og gátu rölt um til þess að fylgjast sem best með ef þeim sýndist svo. Næsta sýning sem við sáum var óperan Tosca sem var...tjah... bara ópera. Svo sem flott, en ég dottaði aðeins í fyrsta þætti þar sem ég hafði ekki hugmynd um hvað gengi á, en því var bjargað með því að ná sér í leikskrá í fyrsta hléi og þar með var maður með á nótunum og vel vakandi.

Helgin var ekkert sérlega öflug fyrir utan það ég kíkti í pool og keilu með tveimur úr hópnum og var það sérlega ódýr skemmtun. Vorum alls í 3 tíma og borguðum tæpan 500 kall á kjaft!!

Grimmsarar takið eftir!!! Ég er búinn að finna stað sem er með fáránlegri lýsingu en veitingahúsið góða í Jonava! Staður þessi heitir Karu Bar og klósettin eru... tjah... spes. Sjáið bara sjálf.


(það skal tekið fram að ekkert flass var notað við töku þessarar ljósmyndar)

Í gær kíktum við svo á "Draum á Jónsmessunótt" sem var alveg stórskemmtileg, tungumálið þvældist ekkert fyrir manni þar sem maður þekkir verkið alveg inn og út eftir að hafa leikið í því hérna um árið og fengið smá upprifjun þegar ég sá það í skólanum í enda síðasta skólaárs.

En jæja, ætli þetta sé ekki bara orðið gott hjá manni?
jú, held það bara...

fimmtudagur, janúar 12, 2006

“It’s the little differences”

Vá! Ég, sem hélt að þjónustufólk í Englandi ætti bágt með þjónustulund, hef nú komist að því að þau eru ekki verst. Hér höfum við mætt fremur kuldalegu viðmóti og jafnvel dónaskap þegar við erum að reyna að versla ýmsa vöru eða þjónustu! Þetta er auðvitað ekki algilt, reyndar er flest þjónustufólk alveg ágætt, en svo virðist sem þeir sem eru ekki alveg í skapi til að hjálpa manni eða bara að gera viðskiptin ánægjuleg leyfi sér meira hvað þetta varðar.

Strætóferðir okkar hafa verið nokkuð spes. Í fyrsta lagi höfum við tekið eftir því að fólk röltir bara inn um hvaða dyr sem er án þess að spyrja kóng né prest, og bílstjórarnir eru ekkert að spá í hvort maður er með miða eða ekki. Þegar við spurðum hvernig á þessu stæði, þá var svarið það að af og til koma eftirlitsmenn um borð í vagnana og biðja fólk um að framvísa miðunum sínum, og ef maður getur það ekki, þá fær maður sekt sem jafngildir 3000 íkr., og þar með er því treyst að flestir séu allavega með miða. Mánaðarkort sem hleypir manni í alla vagna og sporvagna kostar líka bara um 1200 kr., þannig að maður er ekkert að reyna að svindla á þessu. Annað sem hefur komið okkur spánskt fyrir sjónir (eða eyru) við strætóferðirnar er það að strætóstjórarnir tilkynna næstu stoppistöð með því að ræskja sig í hljóðnemann sem tengdur er hátalarakerfi vagnsins. Undantekningin frá þessarri reglu var bílstjóri vagnsins sem þrjú okkar tókum í gærkvöldi, sem stundi hvert orð út úr sér á mjög svo kynferðislegan máta, og fannst okkur því viðeigandi að þessi maður fái aðeins að aka eftir klukkan níu á kvöldin.

Við mætum í leikhús í kvöld. Útskriftarnemar leiklistarskólans munu sýna uppfærslu sína á Kirsuberjagarðinum, sem veldur mér nokkrum áhyggjum. Ekki það að ég búist við að gæðin verði eitthvað lítil, þvert á móti. Málið er bara það að þegar ég rifja upp leiklistarhátíðir liðinna ára, þá hafa þær sýningar sem við höfum séð á öðrum tungumálum fallið í tvo flokka: þær sem eru sjónrænt mjög örvandi, með mjög líkamlegum leikstíl og ýmsum skemmtilegum leikhúsbrellum annars vegar, og lágtemmdari sýningar þar sem áherslan er fyrst og fremst á textann hins vegar. Hvað síðarnefndar sýningarnar varðar, þá var frekar erfitt að halda athyglinni, og jafnvel meðvitund, yfir þeim, og því er ég dáldið hræddur um að eitthvað verði um hrotur í okkar röðum.

En við sjáum hvað setur.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Kominn!!!

Jæja, þá er maður kominn til Tallinn og búinn að líta aðeins í kring um sig. Við hittumst heima hjá nokkrum vinum mínum úr bekknum á aðfaranótt mánudagsins og vorum sótt af rútu kl. tæplega 3 og við komum til Stansted tæplega 4.

Þar var bara chillað á þangað til tími var kominn til að stíga um borð í vélina og við lentum um hálf tólf að staðartíma í Tallinn. Tveir nemendur úr listaskóla borgarinnar tóku á móti okkur og fóru með okkur í heimavistina, sem hefur sína kosti og galla. Við komum okkur fyrir og drifum okkur svo í skólann þar sem skólastjórinn spjallaði við okkur og sýndi okkur aðstöðuna sem er öll hin besta.


Um sjöleitið voru allir orðnir úrvinda þar sem lítill eða enginn svefn hafði átt sér stað síðasta sólarhringinn og fólk var flest komið í rúmið um níuleitið. Nú erum við búin að skoða stærstu verslunarmiðstöð Tallinn (og versla smá, auðvitað og kaupa miða á Tosca í einu óperuhúsinu hér (verð: 360 íkr!)

Hér er nóg um staði sem eru með þráðlaust internet, þannig að færslur munu væntanlega vera sæmilega tíðar og alíslenskar :)

við heyrumst

föstudagur, janúar 06, 2006

Vadandi i Eistum!!!

Klukkan 3, adfaranótt n.k. mánudags mun litil rúta saekja 11 nemendur af 2. ári ETA og skutla theim á Stansted flugvoll. Thadan fljúgum vid til Tallin og hefjum thriggja mánada dvol okkar thar sem vid munum laera og sjá óteljandi nyja hluti sem vid munum orugglega aldrei gleyma. Ég er núna inni á bókasafni Rose Bruford ad kippa sidustu smáatridunum i lag ádur en ég fer og er ad gera daudaleit af ákvednu leikriti sem ég aetla ad nota i leikstjórnarverkefninu minu, sem hefst eftir ad vid komum til baka. Thangad til ad ferdinni kemur aetla ég ad njóta thessarar helgar sem gaeti vel verid sidasta helgin min med Shonel i 3 mánudi.

Vid skrifumst.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Eikkva fokk!!!

Áramótapósturinn minn virðist ekki vilja inn... prófum hvort þetta gengur e-ð betur...