þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Skitapleis!

Hvergi eitt einasta hotspot ad finna her i Sidcup! Verd vist ad bida thangad til ad skolinn byrjar til thess ad senda eitthvad ur tolvunni minni, sem er a morgun :) .

For a karnivalid i Notting Hill i gaer med Dave vini minum, allt i lagi ad djamma svona med eins og 2 millj. manns ; ) Myndir seinna.

laugardagur, ágúst 28, 2004

the frizbee has landed!

Kominn til Sidcup, hef ekki fundid stad med thradlausu interneti, thannig ad eg verd ad posta thetta an islenskra stafa. Nanari frettir, myndir og ferdasaga sidar.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Jææjjjjjah...

Þrír tímar í brottför... ég er lítið sofinn, maginn lætur eins og ég veit ekki hvað og innst í hausnum á mér er lítil rödd sem segir í sífellu: "þú munt gleyma einhverju".

Síðustu dagar eru búnir að fara að mestu í að hitta fólk og kveðja. Hoffman kláraði stúdíóvinnu á miðvikudaginn og er ég þar með hættur í því ágæta bandi... Takk fyrir allt strákar og gangi ykkur vel. Í gærkvöldi hitti ég leikhúsvini mína á Litla Ljóta Andarunganum og fékk mikið af knúsi, óskum um gott gengi og ráðleggingar sem munu stuðla að því. Denni vinur minn á samt punkt kvöldsins og finnst mér gott að deila honum með ykkur þar sem hann á ekki bara við mitt nám heldur gildir hann um lífið almennt, að mér finnst: "þegar þér finnst þér vera að ganga verst, þá ertu að læra mest"

þá er ekki annað að segja en "ta-ta" og sjáumst í desember.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Nokkrir dagar í lífi frizbee

Jæja, Menningarnótt liðin hjá, svo og þynnkan sem fylgdi henni. Allir performansar sem ég tók þátt í gengu vonum framar. Eina vandamálið var að ég asnaðist til að fara á djammið á föstudagskvöldið og fór ekki í rúmið fyrr en um sex að morgni laugardagsins :-s.
En byrjum á byrjuninni. Mætti í bæinn um hádegi, henti dótinu inn til fangor og félaga og fór í bæjarferð með Þóri og Sigga Birni. Kíkti á fangor niðri á austurvelli um 3 leitið og var þar í góðu yfirlæti til rúmlega sex. Fór heim að búa mig undir kvöldið, en planið var að kíkja á X-grill fyrir utan Grand Rokk og tónleika sem voru í kjölfarið. En tæplega sjö hringdi Rauða Ógnin í mig og spurði hvort ég vildi ekki koma með á Lou Reed... frítt! Þessu var auðsvarað og eftir skjóta máltíð í Núðluhúsinu (mæli með því, bæ ðö vei) var brunað upp í Laugardalshöll og notið tónleikanna, sem voru hreint frábærir. Reed var með sellóleikara með sér, Jane Scarpantoni að nafni, sem gerði alla í salnum kjaftstopp með rosalegasta sellósóló sem ég hef heyrt (ekki það að ég hafi á annað borð heyrt marga...). Eftir tónleikana kíkti ég í nýja stúdíóið hennar Selmu Ragnars þar sem ég hitti meðal annars Bogga, Helga Forseta, Perlu og Jóhann Svein og fleiri. Þaðan var haldið á Grand Rokk og fleiri staði og djammað, eins og áður sagði, allt of lengi. Vaknaði rúmlega 11 á laugardagsmorguninn og tók til við að upplifa annasömustu og jafnframt skemmtilegustu Menningarnótt mína hingað til, og bar þar hæst tónleika reggeahljómsveitarinnar Hjálma á Grand Rokk. Munið það, gott fólk, að láta tónleika með þessari frábæru hljómsveit ekki fram hjá ykkur fara (that means YOU, Hildur Sævalds). Eftir tónleikana, sem lauk tæplega 2, var rölt aðeins um og klukkan rúmlega 3 var Ástþór Ágústsson, sem oftast þrjóskast við að djamma sem lengst, búinn á því. En maður fór auðvitað sáttur heim og alveg laus við þessa hræðslu við að vera kannski að missa af einhverju.

Sunnudagurinn fór að mestu í að hlaða batteríin, horfa á íslenska landsliðið í handbolta kúka í sig á móti Rússum og kveðja Victoriu frænku og Ernu Björk þar sem þær voru báðar að halda af landi brott í gær.

Klukkan fjögur í gær mættu liðsmenn Hoffman galvaskir inn í Stúdíó September og tóku til við að taka upp fjögur ný lög. Trommurnar voru kláraðar og í dag er það bassinn og örugglega eitthvað af gíturum sem verður tekið upp. Suma hluti lærir maður einfaldlega aldrei! Eða kannski... maður lærir þá, en maður fylgir þeim ekki eftir.
Til dæmis þá veit ég að ég verð að spila á bassann a.m.k. nokkrum sinnum í viku svo puttarnir séu í spilformi þegar ég þarf að spila eitthvað með einhverjum. En ég geri það ekki, og í dag hegndist mér fyrir það. Upptökusessjón dagsins varð hreinlega sársaukafull þar sem puttarnir voru orðnir því sem næst sigglausir. En ég náði að klára þetta þar sem ég er svo mikill jaxl, aaarrrrrh!!!!

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Eyjan kvödd

Í fyrramálið stekk ég um borð í Herjólf og mun ekki snúa aftur fyrr en um miðjan desember. Sem ég er alveg sáttur við þar sem þessi eyja, eins falleg og hún er, er alveg að kæfa mig! En hingað mun maður snúa í öllum fríum svo maður eigi nú fyrir þessu námi.

Á morgun er menningarnótt, eins og allir vita, og mun ég snúast í ýmsu. Götuleikhúsið Ottó tekur þátt í skrúðgöngunni kl. 13:30, Hoffman spilar kl. 19:00 inni í Ráðhúsi, og svo mun ég væntanlega taka þátt í Stompi með Sláttuvélinni inni í Alþjóðahúsi seinna um kvöldið. Á mánudaginn verður svo haldið í stúdíó til þess að taka upp næstu 3 lög Hoffman sem fara ásamt þeim tveim sem fyrir eru á 5 laga stuttskífu sem vonandi kemur út með haustinu. Þá törn munum við væntanlega klára á miðvikudeginum. Fimmtudagurinn, sem og einhverjir daganna á undan, mun fara í að kveðja og fá pepp frá þeim sem mér þykir vænt um í borginni. Svo flýg ég af stað kl. 15:00 á föstudaginn á vit nýrra ævintýra!

Lærði það í dag að það er varla pirringsins virði að flytja dótið sitt með sér út þar sem skriffinskan er alveg fáránleg í kring um það! Voðalega gott að þurfa að lýsa innihaldi hvers kassa 2 tímum EFTIR að maður er búinn að pakka ofan í þá og loka þeim!!! En hvað myndi ég gera án bassans, gítarsins, magnarans, kertastjakans, myndaalbúmana, geisladiskanna, rúmfatanna, skónna og alls hins sem ég tek með mér??? Læra kannski? Neeeeeeh...

En jæja, 8 dagar í London. (svitnisvitn)

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Stór áfangi!

Loksins! Eitt af stærstu augnablikum ævi minnar hefur runnið upp. Nú get ég allavega dáið sáttur. Það verður erfitt að toppa þessa tilfinningu. Og ég þarf að þakka svo mörgum. En þið vitið hver þið eruð. Takk fyrir, takk fyrir kærlega.

Hver var áfanginn?

Þúsundgestamúrinn hefur verið rofinn hjá frizbee :)

mánudagur, ágúst 16, 2004

Farinn og kominn

Skrapp til Reykjavíkur um daginn til að sjá lokasýningu Leikfélagsins Sýna á Stútungasögu. Þegar ég var búinn að koma mér fyrir heima hjá Stebba, Nönnu og co. um hádegið var haldið rakleiðis niður á Austurvöll til að sleikja sólina með Nönnu og Steina Rót þangað til um kl. þrjú. Þá slóst Rúna í hópinn og var haldið af stað út í Heiðmörk þar sem leiksýningin fór fram. Eftir þá miklu skemmtun var chillað á Vesturgötunni þangað til kominn var tími til að mæta í partý í húsnæði Hugleiks. Sérstaklega hressandi teiti þar sem ég hef sárt saknað ýmissa sem ég hitti þar. Eftir það tók við bæjarferð sem varð að fáu leiti minnisstæð. Daginn eftir kíkti ég í heimsókn í nýju íbúðina hennar Ernu beib og spjallaði þar þangað til Rúna kom og sótti mig til að ferja mig á vinnustaðinn sinn: Draugasetrið á Stokkseyri. Fékk að upplifa túrinn og ég get ekki annað en mælt með þessu. Áhugavert að heyra sögurnar sem þarna eru sagðar og láta hræða úr sér vitið af og til :)

nú eru ellefu dagar í Englandsför, lokaundirbúningur hafinn, og svefn verður æ sjaldgæfari...

föstudagur, ágúst 13, 2004

Það hlaut að vera!

Liam Howlett, sá mikli snillingur, viðurkenndi fyrir NME.com að sér þætti Baby's Got a Temper vera algjört rusl og það eina góða við það lag var að hann vissi nú betur hvert hann ætti EKKI að fara í tónlistarsköpun sinni. Djöfull var ég feginn að lesa þetta þar sem ég þoldi þetta lag ekki.

Hvað...hveh...hvurs........... ha?

Var vísað inn á dálítið áhugaverða síðu af felló bloggara. Sú síða hefur m.a. að geyma myndir frá Mallorcaferð dömunnar sem heldur þessu bloggi uppi. Það skrýtna við þessar myndir er að hún titlar albúmið "my memories from Mallorca" og og af myndunum að dæma hefur hún verið ein alla ferðina, nema að einhver mjög feiminn hafi verið með í för! En miðað við hvað hún hefur gaman af að láta taka myndir af sér þá er hún kannski bara sjálfri sér nóg... En anyways, hér er myndasíðan


people are strange

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

"Whatever happened to Fay Wray?"

- Well, she died

Konan sem helst er þekkt fyrir að hafa öskrað úr sér lungun í King Kong lést á heimili sínu þriðjudaginn 10/8 s.l. Hún var 96 ára gömul. Hvíl í friði.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Netpróf, yet again

úff, maður er nú ekkert að rúla í landafræðinni

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Fátt er svo með öllu gott...

Hef horft minna og minna á sjónvarp undanfarin ár, sem mér þykir gott. En af og til býður sjónvarpið upp á eitthvað sem maður hefði gott af að horfa á og þá er ég sjaldnast fyrir framan tækið (kveiki oftast á því þegar Jay Leno er á Skjá1...það er væntanlega ástæðan fyrir því hvað ég horfi lítið). Til dæmis er Stöð 2 að sýna Angels in America á mánudögum, búin að sýna 3 þætti og ég er rétt búinn að sjá einn og hálfan... en það er alla vega betra en að hafa ekki séð einn einasta, og ég hef einsett mér að sjá restina. Mæli eindregið með því að fólk fylgist með, jafnvel þó það byrji á fjórða þætti... þið komist inn í þetta.
...17 dagar í London (svitn svitn)

mánudagur, ágúst 09, 2004

Einskisnýtur fróðleikur

Ótrúlegt að ég sé búinn að vera með þetta blogg mitt í tvo mánuði án þess að koma með svo lítið sem eitt korn af einskisnýtum fróðleik! Það lagfærist hér með:

Vissuð þið að ef afríkufíllinn (sá mikli kraftajötunn) væri á stærð við mann, þá gæti hann ekki einu sinni lyft 25 kílóum! Og heimsmetið í réttstöðulyftu er 263 kg!

Var að enda við að horfa á "Animal Games" þar sem hin ýmsu dýr eru látin "keppa" sín á milli í ólympíugreinum okkar mannanna. Dáldið kjánalega uppsettur þáttur þar sem dýrin voru axjúlí á venjulegum keppnisvelli og stækkuð eða minnkuð með hjálp tölvutækninnar, en áhugaverður engu að síður. Og svo er það ekki á hverjum degi sem maður fær að vita að maður sé sterkari en fíll... tæknilega séð.

Vonlaust fólk

Sumir ættu bara að skjóta sig, losna þannig við þá kvöð sem það að draga andann hlýtur að vera.

Sofnaði í miðjum innbrotsleiðangri
Húsráðandi í húsi við Hlíðarveg í Kópavogi varð á laugardagsmorguninn var við óviðkomandi mann sem svaf ölvunarsvefni í bílskúr hans. Reyndist maðurinn hafa safnað að sér hlutum úr bílskúrnum, líklega í því skyni að hafa þá á brott með sér, en sofnað áður en til þess kom. Lögreglan handtók manninn og færði í fangageymslu.

tekið af mbl.is

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Random Quote

"people are constantly saying that rock is dying. Every six months someone will say it with enormous conviction.
It's just not going to happen."

Roger Waters úr Pink Floyd, á Live in Pompeii DVD

Ósvífni!

Auglýsendur eru alltaf leita nýrra lægða í sölugræðgi.
Ég sá umfjöllun í 60 mínútum þar sem sagt var frá fyrirbæri sem kallast "undercover marketing". Hún virkar þannig að fólk fer út á götu eða á mannmargan stað og notar einhverja vöru svo fólk taki eftir og/eða býður því að prófa. En málið er að fólkið (fórnarlömbin) veit ekki að það er verið að auglýsa eitthvað!

Þegar Sony Ericsson setti T68 símann á markaðinn sendi fyrirtækið fjölda leikara út á götu. Þessir leikarar dreifðu sér um borgina sem þeir unnu í í pörum. Hvert par þóttist vera alvöru kærustupar sem var bara að skoða borgina og bað fólk sem það rakst út á götu um að taka af sér mynd með nýja flotta símanum þeirra. Manneskjan sem gerir þeim greiðan fær þar með að prófa nýtt tæki og kynnist vörunni örlítið, en hefur enga hugmynd að hún sé skotmark auglýsenda.

Í fyrstu fannst mér þetta sniðug hugmynd. Þetta er svo sem ekki leiðinleg leið til að kynnast nýrri vöru. En svo fór ég að spá: næst þegar manneskja gefur sig á tal við mig, er hún þá bara vinaleg... eða í vinnu??? Þetta fyllti mig viðbjóð. Persónulega hef ég mjög gaman af þeim sjaldgæfu tilvikum þegar maður kemst í spjall við fullkomlega ókunnuga manneskju úti á götu eða eitthvað... maður er bara staddur einhvers staðar, eitthvað fær mann til að skjóta nokkrum orðum að næsta manni og svo bara búmm! Maður eignast nýjan vin í 5 mínútur ("single-serving friends" nefnið myndina takk). Ég veit ekki hvort ég sé að gera mig fullkomlega skiljanlegan hérna en hey... who cares? Málið er að mér fynnst að ég verði að geta treyst á vinalega elementið í fólki. Þar sem fólk gefur sig á tal við næstu manneskju án þess að ætlast til neins af henni, eða græða neitt á því annað en upplifunina. Og nú eru þessir helvítis aumingjar að skemma það fyrir manni!!!

FOKK JÚ!

laugardagur, ágúst 07, 2004


Eru menn svalastir eða hvað? Posted by Hello

föstudagur, ágúst 06, 2004

Af særðu stolti hins hýra:

Sá fullorðinn mann kúka upp á bak sér í Íslandi í dag í gær (Sko Hörður, ég fékk líka að nota þennan frasa!). Verið var að fjalla um Gay Pride gönguna sem verður á morgun og eftir viðtalið var lag hinsegin daga kynnt. Það var lagið I will survive með nýjum íslenskum texta, flutt af überdrottningunni sjálfri, Skildi Eyfjörð...

Áður en ég held áfram vil ég taka það fram að ég hef hitt Skjöld og spjallað við hann, og hann er hinn fínasti gaur, og ég hef ekkert á móti honum persónulega... hvað þá samkynhneigðu fólki yfirleitt.

...grey maðurinn hefur örugglega tekið sér of mikinn tíma í að gera sig flottan og of lítinn tíma í að læra textann því hann fór með fyrstu tvær línurnar og svo bara stopp! Hann engdist og reyndi allt hvað hann gat til að halda kúlinu, en allt kom fyrir ekki. Viðlagið byrjaði og þá virtist okkar maður ætla að taka við sér! En nei, það fór á sama veg, 2-3 línur og svo búið, og Skjöldur greyið í nýjum götuðum bol og allt, til einskis!

Þetta minnti mig á dálítið sem ég hef tekið eftir í fari drottninga (ég ætla engan veginn að klína þessum ranghugmyndum á homma eins og þeir leggja sig (no pun intended) ). Þessar elskur virðast halda það að það eitt að vera gay og fabulous geri þær hæfileikaríkar. Hversu oft hefur maður séð arfaslæma söngvara í American Idol keppninni halda því statt og stöðugt fram að þeir séu æði? Þó að lélegir söngvarar séu jafnalgengir bæði meðal gagn- og samkynhneigðra, þá virðast þeir hýru vissari um eigið ágæti (kannski er ég að sjá þetta eitthvað skakkt, en ég held ekki). Og nú má fólk ekki halda að mér finnist dragdrottningar eða hommar sem eru dáldið "flaming" eitthvað verri skemmtikraftar en aðrir! Góðir skemmtikraftar eru bara mjög sjaldgæfir, og þeir eru ekkert algengari meðal ákveðins þjóðfélagshóps. Viljinn til þess að standa upp á sviði og láta taka eftir sér er það kannski... en getan? Nei!

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Random quote

"Fyrst 'ýsa' er skrifað með ufsiloni, af hverju er 'ufsi' þá ekki skrifað með ýsaloni???"

Sævar Sigurgeirsson

Það eru svona pælingar sem gefa lífinu gildi :)

þriðjudagur, ágúst 03, 2004


Rúna og félagar í veitingatjaldinu á Þjóðhátíð Posted by Hello

T minus 23 days, 21 hours and 15 minutes

Já! Þá er það ákveðið. Ég er búinn að bóka far með Iceland Express til London föstudaginn 27. ágúst næstkomandi. Búinn að fá lánsáætlun frá LÍN og hún lítur bara vel út, ég ætti að geta lagt hluta mánaðarframfærslunnar til hliðar og safnað þannig fyrir næsta skólaári.

Þjóðhátíðinni lauk í gær. Ég náði að bæta mér upp djammleysið með síðasta deginum. Hætti í bílastæðabrasinu kl. 22:30 og mætti galvaskur í brekkusönginn, vafraði svo um svæðið með hinum og þessum, en aðallega í fylgd Rúnu vinkonu minnar. Mætti upp að kínahofinu kl. átta mánudagsmorgun og hitti Gunnar Stein til að endurtaka kassagítardjamm síðasta árs sem virðist ætla að verða árlegur viðburður, en ekki leið á löngu þar til Gunnar varð frá að hverfa vegna tilfinningalegrar krísu vinkonu sinnar. Þar sem planið var að halda sér vakandi þar til fjölskyldan tæki niður þjóðhátíðartjaldið rétt eftir hádegið var haldið niðrí bæ þar sem þeir þrjóskustu voru búnir að planta sér inn á Prófast og djammað í smá stund í viðbót. Svo var haldið heim, tjaldið rifið niður, ég eldaði þennan fína hrísgrjónarétt handa mér, Einari bro og Elvu og henti mér í háttinn kl. 15:07! Sem sagt, nýtt persónulegt met í vökustundum hjá Ástþóri Ágústssyni: u.þ.b. 27 klst!!!

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Sunnudagur, 1. ágúst 2004, 18:05

Búinn að vinna í 26 tíma það sem af er þessari þjóðhátíð, á tæpa 5 eftir. Þar á móti er ég búinn að djamma í 4,5 tíma. Hoffman spilaði á stóra sviðinu á föstudaginn og fékk að finna fyrir bölvun óþekktu hljómsveitarinnar: sem sagt ekkert soundtest, og ekki einu sinni hljóðmaður í sæmilegu ástandi til að sjá um okkur! Hljómurinn uppi á sviði var eins vondur og hægt var að hugsa sér, næstum allir meðlimirnir spiluðu lögin eftir minni og gátu ekkert treyst á að hlusta á hina...þar sem maður heyrði ekkert í þeim. Eina sem ég heyrði í var hljómborðið og einhver hávaði sem hlýtur að hafa stafað af biluðum hátalara sem stóð við hliðina á mér og beindist beint á mig. Engu að síður náðum við að spila nokkuð vel (held ég) og fólk var að mestu ánægt, en sumir tóku eftir því að hljóðmaðurinn var ekki að gera sig.

Eftir tónleikana leyfði ég mér að djamma aðeins en var varla byrjaður þegar ég sá að klukkan var að nálgast sjö og ég þurfti að drífa mig heim. En klukkan ellefu í kvöld verð ég frjáls sem fuglinn og það verður drukkið, sungið, bullað, dansað og hlegið til hádegis á morgun!!!

Og fyrir þá sem sitja heima í leiðindum er þetta