miðvikudagur, júlí 28, 2004

Þjóðhátíð

Þjóðhátíðin byrjar eftir tæpa tvo sólarhringa.  Annað kvöld verður húkkaraball og í kvöld er örugglega eitthvað þjófstart... eins hefur örugglega verið í gær líka.  En Frizbee ætlar að vera í rólegri kanntinum þetta árið.  Í kvöld verður ródað og stillt upp fyrir litla tónleika sem fara fram í gamla vélasalnum á morgun milli 15:30 og 19:00.  Fimm eyjahljómsveitir koma fram svo mæti allir sem geta.  Svo verður bara chillað eftir bestu getu annað kvöld þar sem ég mun sjá um að leiðbeina fólki með hátíðarbílastæðin frá kl. 14 - 24.  Eftir brennuna, sem er á miðnætti, mun Hoffman stíga á stóra sviðið og halda sína stærstu tónleika til þessa.  Vonum bara að allt gangi vel.  Leyfi mér nú að djamma aðeins eftir það :) ...   Svo er bara vinna á laugardeginum og sunnudeginum en það verður dansað við Bakkus um leið og sunnudagsvaktinni er lokið, bara svona til að vera með.

sunnudagur, júlí 25, 2004

"ég hélt einu sinni..."

Munið þið eftir allri vitleysunni sem maður taldi vera heilagan sannleik þegar maður var barn?  Varrius beindi mér inn á þessa síðu þar sem fólk lýsir því sem það trúði sem börn.  Misskemmtilegar sögur, en gaman að skoða þetta og þar sem þetta er á ensku set ég mitt innlegg bara hér:

Þegar ég var krakki hélt ég að það væri til staður sem héti Bana, og skildi ekkert í því af hverju það var alltaf verið að skjóta fólki þangað.  Af og til heyrði maður nefnilega frétt í útvarpinu sem byrjaði á þessum orðum: "Tveir menn voru skotnir til bana..."

Endilega setjið inn comment ef þið kunnið svipaðar sögur :)


laugardagur, júlí 24, 2004

Nöldur

Bara svo þið vitið það: ég ætla ekki að eignast börn... ever! 
Hneykslist hver sem vill, ég er búinn að fá að heyra alla frasana.  "Þú ert bara þröngsýnn" "þetta er bara merki um vanþroska" "hver á að sjá um þig í ellinni"  "djöfuls sjálfselska er þetta, heldurðu að foreldrar þínir bíði ekki eftir barnabörnum frá þér" ... and so on and so forth.

Hann er dálítið skrýtinn þessi tendens hjá fólki að ráðast á þá sem lýsa yfir skoðunum sem eru ólíkar skoðunum meirihlutans.  Sjálfum dettur mér ekki í hug að hella mér yfir ólétta manneskju fyrir að vera "svona heimsk að eignast börn" eða að ryðjast inn í kirkju til að gera grín að þeim "villuráfandi sauðum" sem eru þar.  Ójá, vel á minnst, ég er líka trúlaus... og með því meina ég að ég aðhyllist ekki nein trúarbrögð né heldur trúi að neitt æðra stjórnandi afl (fólk hefur rosalega gaman af því að koma með mismunandi skilgreiningar á trúleysi og standa mig þá að því að vera EKKI trúlaus).  Ég að vísu oft staðið mig að því að vera með hroka út í fólk sem aðhyllist hluti sem ég er fráhverfur, en aðeins af hreinni biturð eftir að einhver miður víðsýn manneskja gagnrýnir mig fyrir að vera eins og ég er.  En þegar það gerist er ég fljótur að skamma sjálfan mig fyrir að falla í þá gryfju.  Af hverju gerum við þetta?  Gæti verið að það fólk sem hefur gagnrýnt (og hreinlega reiðst út í) mig hafi túlkað yfirlýsingar mínar um sjálfan mig sem árás á þeirra eigin gildi?  Gæti vel trúað því,  þar sem ég geri helst ekki lítið úr gildum annarra nema þegar ráðist er á mín (og eins og áður sagði, er fljótur að skammast mín). 

Fór bara að pæla í þessu þar sem stóri bróðir er staddur í heimsókn með konuna og dæturnar þeirra tvær, og vinkona konunnar er með þeim... með tvo stráka í viðbót.  Sem sagt, lítill friður á heimilinu :(     Ekki misskilja mig, ég hef gaman af börnum og þau af mér... ég hef bara takmarkaða þolinmæði gagnvart því þegar þau verða erfið.

Ef einhver hefur eitthvað við þetta að athuga, gimme your best shot!!!

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Ferðasaga

Jæja, lentur í Eyjum eftir hreint út sagt FRÁBÆRA ferð:
 
Byrjaði að skrifa þvílíka ritgerð um þessa ferð en ákvað eftir u.þ.b. 500 orð (og heilmikið eftir að skrifa) að klippa hana niður í punkta:
 
Æðislegt: Gestrisni og greiðvikni Færeyjinga, Backstage-svæðið, jamsessiongræjurnar á backstagesvæðinu, tónleikar Eivarar Pálsdóttur með kanadíska þjóðlagasöngvaranum Bill Bourne, Gåte - norsk þjóðlagarokksveit, jam-sessionið mitt með írskum mandólaleikara og breskum didgeridoogaur (jafnvel þótt ég hafi verið pissfullur og varla getað neitt), það hversu margir mættu á tónleikana okkar og hversu góð viðbrögðin voru (eiginhandaráritanir og alles :) ), það hversu VEL gekk að spila og hversu GAMAN það var!
 
Alltílæ: Færeyskur bjór, veðrið, Kashmir, Lisa Ekdahl.
 
Það litla vonda sem kom upp var svo smávægilegt að það féll algerlega í gleymsku og hafði engin áhrif á þessa frábæru upplifun.  Ég mæli eindregið með því að fólk drífi sig á þessa ört stækkandi hátíð á næsta ári!
 
og nú ætla ég að reyna að fá magan, lungun og lifrina til þess að tala við mig aftur... smá fýla í gangi...
 

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Grey Bush

Öldungadeildarþing Bandaríkjanna hafnaði á dögunum tillögu George W. Bush til breytingar á ákvæði í stjórnarskránni sem gerir fylkjum landsins kleift að leyfa giftingar samkynhneigðra. Húrra fyrir þeim! Sem betur fer eru ekki allir jafn klikkaðir í þessu blessaða landi. Einnig kom það fram í fréttum um daginn að Bush hefur haft uppi fleiri vísanir í Guð í stjórnartíð sinni en nokkur annar forseti USA (hver ætli telji svona hluti?). Kemur ekki á óvart þar sem stuðningur við hann er mestur hjá öfgatrúuðum hópum eins og Moral Majority og svoleiðis pakki. Ef þessum manni tekst að ná (eða svindla sér) kjöri aftur þá er eitthvað ALVARLEGT að!

þriðjudagur, júlí 13, 2004

...og biðin styttist

Hljómsveitin Hoffman leggur af stað til Reykjavíkur með seinni ferð Herjólfs á fimmtudaginn, og svo verður flogið af stað til Færeyja á föstudagsmorgunn. Blendnar tilfinningar í gangi yfir þessari ferð. Annars vegar er mikil tilhlökkun yfir að fá að djamma og spila í Færeyjum, hins vegar er lítil ánægja með það að eiga að spila kl. 16:30 um daginn, svo er kvíði yfir því að það verði kannski bara örfáar hræður að hlusta á okkur. En ef allt fer á versta veg þá getum við svosem alltaf drukkið okkur til ómynnis eftir á :)

Götuleikhúsið hefur runnið sitt skeið með öllum sínum kostum og göllum, en á endanum verður þetta að teljast jákvæð reynsla því ég náði að kveikja áhuga hjá nokkrum krökkum á djöggli, bæjarbúar voru víst hrifnir af uppátækjunum okkar, og svo lærði ég bara heilmikið á þessu sjálfur. Nú hefur saltfisksvinnsla tekið aftur við hjá mér, en óvíst er hversu lengi ég hef þá vinnu... en ég fæ allavega að vera þangað til ég legg af stað til Færeyja :S

sunnudagur, júlí 11, 2004

We just can't win

Merkileg þessi tilhneiging ákveðins hluta mannkyns til að ánetjast nokkurn veginn hverju sem er. Það nýjasta: SMS fíkn! Fjöldi fólks hefur þegar leitað sér hjálpar til þess að sigrast á þessum nýjasta sjúkdómi nútímamenningar og einhver mikilsmetinn sálfræðingur í Þýskalandi áætlar að um 380.000 manns þjáist af þessum sjúkdómi í Þýskalandi einu saman! Afleiðingar SMS fíknar eru mikill fjárhagslegur skaði, skert samskiptahæfni, þunglyndi og fleira í þeim dúr.

Er allt að fara til fjandans??? Það hljómar nokkuð líklega...

laugardagur, júlí 10, 2004

Daginn eftir:

Gústaf gerðist höfðingi í gær og splæsti á mig fyllerí. Kíktum á Lundann með Hildi Sævalds og djömmuðum með hópi af fótboltastelpum... hver segir að íþróttafólk sé góð fyrirmynd??? Skemmtilegur hópur engu að síður... eða kannski þar af leiðandi. Am I making any sense? Hverjum er ekki sama? Dró liðið heim í partí eftir lokun, síðustu hræðurnar fóru heim kl. 9 um morguninn. Sem sagt gott kvöld/nótt/morgunn. Lærði samt eitt: maður á ekki að reyna erfið handstöðutrikk úti á steyptum palli, fullur, klukkan átta um morguninn. Skrámað og hólótt enni mun minna mig á eigin heimsklassaheimsku næstu vikuna eða svo.

Rifjaði upp nokkra gullmola úr Hitchhikers Guide to the Galaxy með nokkrum vinum síðustu helgi og mig langar að deila einum með ykkur:

"Ford Prefect hit the ground running. Actually, the ground was three feet further away from the ventilation shaft then he had remembered, so he started running in mid air, stumbled awkwardly and twisted his ankle" (örugglega ekki orðrétt tilvitnun en hún virkar)

Ég meig næstum í mig af hlátri þegar ég las þetta. Hvernig virkar eiginlega hausinn á svona mönnum sem geta endalaust leikið sér með tungumálið sitt, orðatiltæki og slíkt?
Ef þú, lesandi góður, hefur ekki lesið "Hitchhikers Guide..." en fílar gegnumsýrða kaótíska vitleysu, þá náðu þér í þessar bækur (þær eru fimm). Skyldulesning fyrir alla sem hafa gaman af því að "hugsa utan kassans".

föstudagur, júlí 09, 2004

and then there were three...

Hjalti kallinn farinn að blogga. Það þýðir að ef Gummi byrjar líka, þá verður Bokki bara á fullu í blogginu :)

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Enn og aftur: Próf á netinu eru skemmtileg

Sló sjálfum Andra Húgó við í þessu, and you KNOW he's good!Náði 49/100 sem er víst það besta sem hægt er að búast við af karlmanni :Þ ...reyndar finnst mér að hæsta einkunn ætti að vera DD, en ekki A...

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Sagði einhver "íþróttaböl"?

Dreif mig á körfuboltaæfingu áðan með það fyrir augum að það er hollt að hreyfa sig og maður má hafa sig allan við til að halda sér í formi. Það endaði með því að ég missteig mig, á ökla sem var ekkert í tip-top standi fyrir!!!
Nú sit ég fyrir framan tölvuna, með vafinn ökla og sé fram á að þurfa að borga nokkra þúsundkalla í lækniskostnað með röntgenmyndum, bólgueyðandi lyfjum og svoleiðis fíneríi.
Planið í kvöld? Counter Strike, kók, Doritos, ídýfa og sígarettur, og ég er þess fullviss að ég mun ekki slasa mig við það!!!

En eitt lærði ég af þessu: Það er örugglega fátt jafn hlægilegt í sjón og nakinn maður hoppandi á öðrum fæti.

HA HA!!! Ég vissi það!!!

Sirkusdraumar mínir munu víst rætast eftir allt saman!!! Allavega samkvæmt þessum hávísindalega og áreiðanlega vef!

Astthor Agustsson, Your ideal job is a Circus Freak.

mánudagur, júlí 05, 2004

Málfræði

Ég var að fatta eitt: ef orðið "vegur" væri hvorugkynsorð og hagaði sér eins og orðið "veður", og maður myndi bæta við það ákveðnum greini, þá væri maður kominn með "vegrið"!!!

Áhugavert, ekki satt?

sunnudagur, júlí 04, 2004

Öfund

Ég veit að það er til lítils að hugsa svona, en ég leyfi mér það í smá stund...

Hef verið að horfa á DVD diska sem innihalda sýningar Cirque du Soleil og dást að snilldinni sem þar fer fram. Þetta hefur fyllt mig löngun til þess að vera í sirkus. Nú blóta ég því í sand og ösku að hafa ekki byrjað í leikhúsi fyrr, og að hafa ekki haft vit á því að byrja í fimleikum þegar ég var krakki. Nú er ég 25 ára gamall, og þó ég geti með fullri vissu sagt að ég sé í ágætis formi, þá er einfaldlega of langt í land... eða hvað? Er búinn að stúdera atriðin sem sirkusinn er með og þau krefjast ekki öll þess að maður hafi ævilanga þjálfun í fimleikum og akróbatík að baki. Agi og metnaður er í rauninni allt sem þarf... og dágóður slatti af hæfileikum :S . Ég vona það svo innilega að það verði einhver trúða- og götuleikhúsworkshops í Rose Bruford sem ég get sótt. Ég er ekki að reyna að plata sjálfan mig til þess að trúa því að ég muni verða sirkusperformer... en maður má ekki útiloka neitt. Mitt vandamál er að ég á erfitt með að vinna eingöngu að mínum eigin framförum. Ég þarf að bera ábyrgð gagnvart einhverju samstarfsfólki til þess að ég leggi mig alvarlega fram við hlutina. En er þá ekki málið útrætt? Skortir mig þá ekki þann sjálfsaga sem þarf til að verða virkilega góður í einhverju?

Örugglega.

En maður getur alltaf þroskast :)

laugardagur, júlí 03, 2004

Fíkn

Hef blessunarlega sloppið við meiriháttar vandamál eins og áfengissýki og eiturlyfjafíkn um ævina. Nikótínfíknin er að vísu dálítill andskoti, en ég losa mig við hana áður en langt um líður. Hins vegar er önnur fíkn sem ég þjáist af og eru fráhvörfin í meira lagi óþægileg: slen, þunglyndi og annað í þeim dúr. Ég er nefnilega fíkill í fólk og verkefni. Ef ég er ekki með að minnsta kosti 2 skemmtilegar manneskjur í kring um mig eða með eitthvað spennandi verkefni sem ég þarf að vinna að þá fæ ég fráhvarfseinkenni. Það útskýrir færsluna sem kom í gærkvöld. Þó að fjárhagsáhyggjur séu eðlilegar í minni stöðu, þá þýðir ekkert fyrir mann að örvænta fyrirfram. Og ef ég stend mig einhvern tíma að því að efast um hvort ég eigi að fara út þá hugsa ég bara um spakmælið sem Kjartan vinur minn var með uppi á vegg hjá sér: "skip eru öruggust í höfn, en þau eru ekki smíðuð til að vera þar".

Gott umhugsunarefni fyrir alla, finnst mér.

föstudagur, júlí 02, 2004

Hressleiki

Var bara að fatta þetta fyrst í kvöld: Horfði á George Lopez á Stöð 2... nú veit ég að ef ég þarf að SANNA það fyrir einhverjum að ég sé hress þá þarf ég bara að ná mér í trampólín og hoppa rosa hátt og brosa. Er ég kannski sá eini sem er þreyttur á því þegar sjónvarpsþættir byrja svona? Reyndar er Spaugstofan eini þátturinn þessarar tegundar sem ég man eftir í fljótu bragði, en þá þarf maður í rauninni ekki að segja meira.

Tvær vikur í það að Hoffman mæti á G-Festival í Götu í Færeyjum. Mikil tilhlökkun þar.
Tveim vikum seinna er Þjóðhátíð. Hoffman á stóra sviðinu strax eftir brennuna. Hlakkihlakk!
Einhvers staðar í ágúst er menningarnótt, sem er löngu orðinn fastur liður í sumardagskrá minni.
Og svo... Rose Bruford... væri það ekki æði að vera með geðveikar einkunnir eftir fyrsta árið, og hafa svo ekki efni á meiru!

Í fullri svartsýni,
Ástþór

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Veðmál

Veðmál geta haft alvarlegar afleiðingar! Flestum detta í hug ýmis fjárhættuspil og spilakassar sem ræna fólk aleigunni smátt og smátt (og stundum á einu bretti), en ég er líka að tala um aðra sort, þar sem fólk þarf að niðurlægja sig ef það tapar, eða jafnvel leggja sig í hættu!!! Áður en þið takið þátt í slíkum veðmálum skulið þið muna sögu þessa einstaklings.