mánudagur, október 26, 2009

Langt síðan síðast...

Já, langt síðan að ég skrifaði eitthvað hérna inn. En það er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst, langt því frá!

Átti eina af verstu vikum lífs míns í byrjun mánaðarins: veiktist á mánudeginum og missti 2 daga úr vinnu, en þurfti þess í stað að standa í því að pakka saman og þrífa íbúðina okkar, þar sem við vorum búin að finna nýja íbúð og vorum að fara að flytja út á miðvikudeginum. Kathrin hringdi frá Sviss á mánudagskvöldið og sagði mér að sambandið okkar myndi ekki ganga, en hún vildi hitta mig á fimmtudaginn eins og við höfðum ákveðið að við myndum gera þegar hún væri komin til baka. Þriðjudagskvöldið fáum ég, Auðunn og Vala þær fréttir að eigandi íbúðarinnar sem við ætluðum að flytja í væri hættur við okkur og ætlaði að leigja bænum hana. Við sem sagt heimilislaus.
Hitti svo Kathrin á fimmtudag og fæ það á hreint að ekkert muni ganga okkar á milli (nenni ekki að útskýra það frekar hér, er búinn að gera það nógu oft, en hlutirnir eiga eftir að lagast og við munum alveg geta unnið saman og verið vinir). Ástarsorg gerði næstu daga ómögulega, og ekki bætti úr að vinnan var sérlega erfið á föstudagskvöldið.

En, ekki hefur þetta allt verið eintómt væl og volæði. Við erum komin í nýja íbúð eftir að hafa gist hjá velviljandi vinum, ég vann örstutt með félagi sem heitir Tangled Feet, og við sýndum hálfgert lifandi tónlistarmyndband á stórskemmtilegu listakvöldi þar sem fullt skemmtilegt var í gangi. Ég stóð meðal annars í því að dangla úr siglínu til þess að láta stelpu sem var á hinum endanum rísa og falla rúma 4 metra. Það var gaman. Svo voru hljómsveitirnar sem spiluðu þarna alveg magnaðar, og ég dansaði meira en ég hef gert í langan tíma.

Svo er ég að fara að vinna með uppáhalds kennaranum mínum úr Rose Bruford í næstu viku, sem verður gaman, og von að eitthvað frekara gerist upp úr því.

Meira dettur mér ekki í hug í bili.

Sjáumst eftir 2 mánuði eða svo... en vonandi fyrr :)