Neikvæðni
Neikvæðni selur miklu betur en jákvæðni, það er löngu orðið á hreinu miðað við fréttaflutning fjölmiðlanna. Við viljum miklu frekar frétta af því að Britney Spears hafi dottið í það og skilið börnin eftir heima með ekkert nema skæri, prjónasett og Bratz-dúkkur til að leika sér með, heldur en að hún hafi átt ánægjulegan dag með þeim og kennt annarri þeirra að hjóla með góðum árangri. Um daginn sá ég ánægjulega frétt um konu sem býr á Vestmannabrautinni hér í Eyjum og ætlaði sér að mála húsið sitt. Konan er komin af besta aldri og sóttist verkið víst seint, þannig að nágrannar hennar sendu hana bara inn til sín að slappa af og kláruðu verkið fyrir hana. Einhvern veginn efa ég að þessi frétt hafi skapað mikið umtal í heitu pottunum.
Af hverju gerum við þetta? Af hverju finnst okkur svona miklu skemmtilegra að velta okkur upp úr eymd og volæði annarra? Líður okkur öllum svona illa með okkur sjálf að við þurfum að tala um þá sem eru "verri en við"? Ég veit ekki.
Það versta er að ég er sjálfur að falla í þessa gildru akkúrat núna. Af hverju gat ég ekki bloggað um eitthvað jákvætt í staðinn?