mánudagur, mars 19, 2007

Rétt úr kútnum

Tók upp smá vídeó á einni æfingunni minni í síðustu viku og tók eftir því, sem ég hef svo sem tekið eftir áður, hvað ég er hokinn. Ég er kannski ekki neinn kroppinbakur, en þetta er ekki falleg líkamsstaða, og ekki eitthvað sem lítur vel út á sviði. Er núna alltaf með það í hausnum hvernig ég er að bera mig hverju sinni. Ef ég gat vanið mig á að anda niðrí maga, þá get ég vanið mig á þetta!

Fór með Snorra Hergli og nokkrum skólafélögum á sýningu hjá leikfélagi Peaders, fyrrum kennarans okkar, í gær og skemmti mér æðislega. Við það að sjá þessa sýningu vaknaði hjá mér ákveðin von. Málið er að í henni voru tvær stelpur sem útskrifuðust af ETA eftir síðasta skólaár, þannig að maður sér séns á því að fá kannski að vinna með goðinu sínu eftir útskrift. Það væri BARA kúl!!!

Lokaverkefnið, sem er búið að vera á dálitlum hægagangi undanfarið, virðist vera að sækja í sig veðrið, en enn er langt í land og engan veginn hægt að slá slöku við. Er alvarlega að íhuga að stytta páskafríið mitt í annan endann til þess að geta lagt inn smá aukavinnu með strákunum.

En jæja, Jason kennari kíkir á æfingu á morgun. Vonandi líst honum vel á vinnuna.