mánudagur, apríl 10, 2006

Axjonn!!!

Kominn heim. Stoppaði í þrjár nætur í Rvk sem áttu að fara mestmegnis í afslöppun og kannski eina eða tvær kaffihúsaferðir. Í staðinn fór ég á dEUS tónleika, "Forðist Okkur" í Borgarleikhúsinu og grandskoðaði næturlíf borgarinnar, sem hefur ekki tekið mörgum breytingum, en þó einni sem hryggir mig mjög: 22 hefur lokað. En ég hef allavega enn þá 11na!

Svo bara Hoffman í 2. sæti á Xinu og Foreign Monkeys sigurvegarar músíktilrauna. Heilar fjórtán sveitir starfandi á eyjunni fögru og bæjarstjórnin búin að lofa að styðja betur við bakið á vestmannaeysku rokksenunni. Að hugsa sér, þegar við vorum á fullu í D-7, þá vorum við og Dans á Rósum einu hljómsveitirnar sem störfuðu að einhverju ráði hérna, nú er allt morandi í hljómsveitum og sífellt verið að halda tónleika og svona. Það er þá kannski von fyrir Eyjar enn...