Jæja, þriðjudagur í dag... 6 dagar þangað til að ég þarf að skila inn ritgerðinni minni um Ghosts eftir Ibsen og ég veit ekkert hvað ég á að skrifa. Ég hef svo sem ýmislegt að segja um leikritið, en ég held að það hafi ekkert með þau fræðilegu sjónarmið sem við eigum að skrifa frá að gera. Það væri týpískt ef ég myndi falla úr skólanum vegna þess að ég gerði það sem mig langaði til. Þar með væri ein af lykillífsreglum mínum ekki bara farin til fjandans, heldur búin að eyðileggja allt fyrir mér!!! Reglan er sú að ef maður heldur sig alltaf við það sem er öruggt eða auðvelt þá mun maður ekki komast neitt áfram. En, 6 dagar eru 6 dagar, og það er meira en nóg til að skrifa 2500 orð. En, eins og áður sagði, þá verð ég að vita hvaða orð ég ætla að setja niður á blað... eina sem ég veit er að ég ætla ekki að klúðra þessu!
"I figured: since I've come this far, I might as well keep on going"
Forrest Gump
Heyrðu já! Ég fór á tónleika á föstudaginn! Þvílík öskrandi andskotans snilld!!! Nick Cave er
snillingur. Maðurinn stoppar varla meðan tónlistin er í gangi, hann gæti sungið um asparssúpu
og látið það hljóma eins og eitthvað merkilegt. Maður getur ekki annað en tekið þennan mann
alvarlega. Hreyfingarnar hans á sviði eru algjörlega spasstískar en það sýnir bara að maðurinn þorir að tapa sér algjörlega í tónlistinni. Celine Dion getur barið sér endalaust á brjóst og Britney æft danssporin sín þangað til kýrnar koma heim, þær ná ekki að sannfæra neinn heilvita mann um að þær meini þar sem þær syngja um. Reyndi að taka sómasamlegar myndir, en ljósmagnið var aldrei nægt til að ná neinu almennilegu, en hér er allavega
höllin utan frá, svo skástu myndir nr.
1 og
2.
Kíkti til frænda minna - Chris og Andrew, sonar hans - í Woking á laugardaginn. Dagurinn fór í
afslöppun, spjall, pool og Counter Strike!!! Svo bauð Chris okkur peyjunum út að borða áður en
ég hélt aftur til Sidcup.
Fór að spá í einu alveg út í bláinn í gær. Í fyrsta söngtímanum hjá ATA kenndi kennarinn okkur lítinn lagstúf og lét síðan nokkra úr hópnum syngja með sínum hreim, t.d. skoskum, suður-londonskum (er það orð?), velskum o.s.frv, svo sagði hann við mig að ég hlyti tala íslensku með öðrum hreim en fólk af öðrum landshlutum. Ég sagði honum að það væru aðallega norðanmenn sem skæru sig úr en annars töluðu allir íslendingar nokkurn veginn eins. Hann sagðist ekki trúa því svo glatt og sagði að ég þyrfti að hlusta eftir þessum litlu núönsum í máli fólks. Ég man nú eftir að hafa lært að fólk frá einhverjum landshluta væri flámælt, og svo var þetta "hahnga, lahnga, gahnga"-dæmi hans Jóns Baldvins, sem kemur að vestan, ekki satt? En ég hef bara aldrei heyrt neinn tala eins og hann Nonni talar, og ég hef aldrei hitt mann sem hefur einhvern öðruvísi talanda en aðrir sem ég þekki. Vissulega hefur fólk sinn eigin talanda og fjölskyldur tjá sig á mismunandi máta, en það er varla hægt að tala um staðbundinn hreim á Íslandi lengur fyrir utan Norðlenskuna... er það nokkuð? Endilega leiðréttið mig ef ég er algjörlega úti að aka.
VARÚÐ!!! Nasisminn er í fullu fjöri og farinn að láta til sín taka meðal fólks, aðallega með skilaboðum fyrir undirmeðvitundina (subliminal messages/advertising). Hvar hafa þessir arísku mikilmennskubrjálæðingar skotið rótum? Í skoskri haframjölsverksmiðju!!! En þökk sé árvekni Öysteins, meðleigjanda míns, þá getum við varað ykkur, lesendur góðir, við
þessu!
Leiklistarfólk athugið!
Á að fara út á lífið um helgina?
Viljið þið vera menningarleg en samt sýna hörku í drykkjunni?
Alvöru leiklistarfólk drekkur Chekov Vodka!!!