Jæja, Menningarnótt liðin hjá, svo og þynnkan sem fylgdi henni. Allir performansar sem ég tók þátt í gengu vonum framar. Eina vandamálið var að ég asnaðist til að fara á djammið á föstudagskvöldið og fór ekki í rúmið fyrr en um sex að morgni laugardagsins :-s.
En byrjum á byrjuninni. Mætti í bæinn um hádegi, henti dótinu inn til fangor og félaga og fór í bæjarferð með Þóri og Sigga Birni. Kíkti á fangor niðri á austurvelli um 3 leitið og var þar í góðu yfirlæti til rúmlega sex. Fór heim að búa mig undir kvöldið, en planið var að kíkja á X-grill fyrir utan Grand Rokk og tónleika sem voru í kjölfarið. En tæplega sjö hringdi Rauða Ógnin í mig og spurði hvort ég vildi ekki koma með á Lou Reed... frítt! Þessu var auðsvarað og eftir skjóta máltíð í Núðluhúsinu (mæli með því, bæ ðö vei) var brunað upp í Laugardalshöll og notið tónleikanna, sem voru hreint frábærir. Reed var með sellóleikara með sér, Jane Scarpantoni að nafni, sem gerði alla í salnum kjaftstopp með rosalegasta sellósóló sem ég hef heyrt (ekki það að ég hafi á annað borð heyrt marga...). Eftir tónleikana kíkti ég í nýja stúdíóið hennar Selmu Ragnars þar sem ég hitti meðal annars Bogga, Helga Forseta, Perlu og Jóhann Svein og fleiri. Þaðan var haldið á Grand Rokk og fleiri staði og djammað, eins og áður sagði, allt of lengi. Vaknaði rúmlega 11 á laugardagsmorguninn og tók til við að upplifa annasömustu og jafnframt skemmtilegustu Menningarnótt mína hingað til, og bar þar hæst tónleika reggeahljómsveitarinnar Hjálma á Grand Rokk. Munið það, gott fólk, að láta tónleika með þessari frábæru hljómsveit ekki fram hjá ykkur fara (that means YOU, Hildur Sævalds). Eftir tónleikana, sem lauk tæplega 2, var rölt aðeins um og klukkan rúmlega 3 var Ástþór Ágústsson, sem oftast þrjóskast við að djamma sem lengst, búinn á því. En maður fór auðvitað sáttur heim og alveg laus við þessa hræðslu við að vera kannski að missa af einhverju.
Sunnudagurinn fór að mestu í að hlaða batteríin, horfa á íslenska landsliðið í handbolta kúka í sig á móti Rússum og kveðja Victoriu frænku og Ernu Björk þar sem þær voru báðar að halda af landi brott í gær.
Klukkan fjögur í gær mættu liðsmenn Hoffman galvaskir inn í Stúdíó September og tóku til við að taka upp fjögur ný lög. Trommurnar voru kláraðar og í dag er það bassinn og örugglega eitthvað af gíturum sem verður tekið upp. Suma hluti lærir maður einfaldlega aldrei! Eða kannski... maður lærir þá, en maður fylgir þeim ekki eftir.
Til dæmis þá veit ég að ég verð að spila á bassann a.m.k. nokkrum sinnum í viku svo puttarnir séu í spilformi þegar ég þarf að spila eitthvað með einhverjum. En ég geri það ekki, og í dag hegndist mér fyrir það. Upptökusessjón dagsins varð hreinlega sársaukafull þar sem puttarnir voru orðnir því sem næst sigglausir. En ég náði að klára þetta þar sem ég er svo mikill jaxl, aaarrrrrh!!!!